Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Greinin birtist fyrst á mbl.is/vidskipti 18. nóvember 2015

Vaxandi óánægju gætir meðal íbúa Reykjanesbæjar vegna umhverfisáhrifa fyrirhugaðra kísilmálmvera United Silicon og Thorsil í Helguvík. Neikvætt viðhorf íbúanna byggist á ótta við samanlögð mengandi áhrif frá verksmiðjum fyrirtækjanna tveggja mjög nærri íbúabyggð.

Fyrir liggur að verði bæði kísilmálmverin byggð í samræmi við fyrirliggjandi áfangaáætlanir, muni loftgæði í nágrenninu rýrna tilfinnanlega og brennisteinsmengun í andrúmslofti fara yfir lögmælt viðmiðunarmörk í íbúðahverfum Reykjanesbæjar. Sérfræðingur, sem greinarhöfundur innti álits, segir útlilokað að bæði kísilmálmverin geti hafið starfsemi. Strax við starfrækslu 1. áfanga fari sameiginleg efnalosun frá verksmiðjunum yfir leyfileg mörk.

Nánd við skóla
M.a. hefur verið bent á að í aðeins rúmlega kílómetra fjarlægð frá kísilmálmverunum séu fjórir leikskólar. Að auki séu þrír grunnskólar í nágrenni við verksmiðjanna. Þetta þýði að þessi börn og unglingar muni búa við stöðuga loftmengun þar sem flest þeirra búi í nærliggjandi hverfum. Eftir því sem næst verður komist, er ekki heimilt að reisa kíslmálmver svo nærri íbúabyggð í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þar sé skilyrt að fjarlægð frá mannlífi sé mun meiri.

Er loftmengun af þessu tagi yfirleitt ásættanleg fyrir íbúa í þéttbýli? Það orð fer af kísilmálmverksmiðjum af þessi tagi að þær losi óhóflegt magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Óljóst er jafnframt hvort aðföng hráefnis til beggja verksmiðjanna muni standast kröfur um varnir gegn rykmengun. Heyrst hefur að muldu kísilgrjóti verði mokað upp úr lestum skipa í Helguvíkurhöfn með grabba og því síðan skellt á færiband í opnu kerfi með tilheyrandi ryklosun, líkt og gert er hjá kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga. Ef rétt reynist, getur slík mengun reynst afar hvimleið íbúum í nærliggjandi byggðum þegar vindátt er óhagstæð.

Efasemdir um lögmæti
Það eru ekki einungis íbúar Reykjanesbæjar sem gagnrýna þessi áform. Heyrst hefur að forvígismönnum Thorsil hugnist ekki hvernig standa á að málum og mengunarvörnum hjá United Silicon. Lengi hefur verið spurt hvort löglega hafi verið staðið að mati á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmvers United Silicon í Helguvík. Svo virðist sem danska fyrirtækið  Cowi hafi verið skrifað fyrir matsgerð í byrjun en það svo skyndilega horfið úr matsskýrslum án skýringa en íslenskir aðilar komið í staðinn. Í millitíðinni var lofað gögnum og útskýringum frá Cowi sem aldrei komu.

United Silicon hefur einnig gert athugasemdir um fyrirhugaða starfsemi Thorsil á svæðinu með erindi til Skipulagsstofnunar dags. 3. desember 2014 sbr.: „…þegar samlegðar- og sammögnunaráhrif allra iðnfyrirtækja með starfsleyfi á Helguvíkursvæðinu eru reiknuð, og fyrirhuguaður útblástur Thorsils bætist við, myndi brennisteinsmengun í andrúmsloftinu fara yfir lögmælt viðmiðunarmörk í norðurhluta Reykjanesbæjar…“.

Því má velta fyrir sér hvers vegna nauðsyn ber til að staðsetja kísilver svo nálægt íbúðabyggð í jafn dreifbýlu landi og Íslandi. Hefði ekki mátt færa verksmiðjurnar fjær byggð til að betri sátt næðist um málið? Var byrjað á öfugum enda? Þetta eru áleitnar spurningar meðal fólks í nærliggjandi sveitarfélögum og víðar.

Comments

comments