Er álagning verslunar á Íslandi óeðlileg? Umhverfi verslunar á Íslandi er verulega breytt. Verslunin er að sífellt að verða alþjóðlegri. Neytendur skjótast milli landa og kaupa inn frekar en að eiga viðskipti við íslenska verslun. Sérstaklega á þetta við um fatnað og skó. Póstverslun yfir netið og pakkaflóð til landsins er í veldisvexti og á eflaust eftir að aukast enn frekar. Helst er það dagvaran sem neytendur eiga erfitt með að versla erlendis frá. En margt bendir til þess að það sé einnig að breytast.

Þegar talið berst að álagningu verslunarinnar heyrum við gjarnan á málflutningi talsmanna verslunarinnar þar sem er borið við krónunni, flutningskostnaði, litlum markaði og launahækkunum svo eitthvað sé nefnt. Allt á þetta við rök að styðjast en þessar afsakanir duga skammt, því með hnattvæðingu og verslun í gegnum netið geta neytendur gert verðsamanburð við verslanir erlendis samstundis. Þannig eru þekktar sögurnar af athafnamanninum sem festi kaup á nýjum hjólbörðum fyrir jeppling fyrir þriðjung af því verði sem kaupmenn hér á landi buðu sambærilega hjólbarða á. Varahluturinn í Japanska bílinn sem var fluttur úr smásöluverslun í Tókíó með hraðsendingu um hálfan hnöttinn og hingað komin með flutning og öllum gjöldum var einnig um þriðjungur af því varahlutaverði sem viðkomandi bifreiðaumboð vildi fá fyrir sama hlut. Framkvæmdastjóri IKEA benti um daginn á þá staðreynd að Olíufélögin eru að selja hálfan lítra af gosdrykk með sexfaldri álagningu á innkaupsverð.

Ljóst er að bæði vörugjalda lækkun og styrking krónunnar hefur ekki skilað sér í vöruverði. Verslunin er að taka meira til sín en áður. Á þessu eru sem betur fer einhverjar undantekningar, en þær eru of fáar. Besta aðhaldið fyrir neytendur á verslunina er að auka frjálsræði og hvetja enn frekar til beinnar verslunar í gegnum netið.

Verslunin á Íslandi hefur komist upp með verðlagningu fram úr hófi í langan tíma. Mikið óhagræði er innbyggt í kerfið og neytendur eru miskunnarlaust látnir greiða fyrir sukkið.  Einnig eru sláandi dæmi um tvöfalt verðkerfi þar sem stórir viðskiptavinir eru á mjög háum afslætti á meðan að venjulegi neytandinn er látin greiða ofurálagningu.

Það býður verslunar á Íslandi að taka til og leita hagræðingar á öllum sviðum ef verslun á ekki að flytjast að verulegu leiti úr landi.

 

Comments

comments