Vilhjálmur Ari Arason ritar pistil á Pressuna þar sem hann gagnrýnir harðlega Hjálmar Sveinsson formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar vegna greinar sem Hjálmar ritar í Morgunblaðið og segir þar að „vegna fjölgunar íbúa og bifreiða stefni í að umferðin verði dauðastopp í Reykjavík eftir nokkur ár. Þess vegna verði að fá fólk til að nota almenningssamgöngur.“ Vilhjálmur bendir hér réttilega á hversu galin staðsetning Landspítala er í ljósi málflutnings Hjálmars, sem staðfestir enn á ný að Reykjavíkurborg ætlar sér að láta byggja þjóðarspítala fyrir nokkra valda einstaklinga í vesturbæ Reykjvíkur og algert aukaatriði er er í huga fulltrúa meirihluta borgarstjórnar að aðrir landsmenn hafi eðlilegt aðgengi að nýjum Landspítala við Hringbraut.

Grein Vilhjálms er hér fyrir neðan í heilu lagi:

——

Vilhjálmur ari

Vilhjálmur Ari Arason

Í Morgunblaðinu í dag segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar að vegna fjölgunar íbúa og bifreiða stefni í að umferðin verði dauðastopp í Reykjavík eftir nokkur ár. Þess vegna verði að fá fólk til að nota almenningssamgöngur. Þetta stangast á við sjónarmið Hringbrautarsinna sem sjá engin sérstök umferðarvandamál til framtíðar. Hjálmar segir að ekki hafi verið gengið eftir fjármagni frá ríkinu, einum milljarði á ári frá árinu 2012 og sem ríkið var búið að lofa til uppbyggingar samgöngumannvirkja í borginni (m.a. Miklubrautina í stokk, nýja akstursbraut um Hlíðarfót og svo sjálfa Sundabraut sem væri samt mest á kostnað ríkisins). Stefna borgarinnar sé nefnilega að minnka vægi einkabílsins sem mest og að tilgangslaust sé að lappa upp á þegar sprungið kerfi!  Allt þá ein hringavitleysa!

Ákvörðun borgarráðs frá árinu 2012 er þannig ákvörðun um afnám á einni aðal forsendum staðarvals Nýs Landspítala við Hringbraut á sínum tíma upp úr aldarmótunum og sem lýsir í raun fordæmislausu geðþóttarvaldi í stjórnsýslu landsins út frá sérhagsmunum, ekki síst í ljósi þess að aðrir samgöngumöguleikar eru óráðnir eða í skýjunum (samgöngur með lestum og sporvögnum í framtíðinni)! Skítt með þegar fyrirsjáanlegt aðgengi að nýja þjóðarspítalanum næstu áratugina við Hringbraut (strax árið 2023), m.a. hvað alla sjúkraflutninga varðar.

Menn nefna jafnvel í þessu samhengi að starfsfólk geti bara gengið eða hjólað í vinnuna þegar þar að kemur. Ótrúlegur einfeldningsháttur vil ég segja og sem litast fyrst og fremst af draumsýn og sérhagsmunum borgarstjórnar um að halda stærsta vinnustað landsins í miðborginni og sem næst HÍ, hvað sem það kostar. Á kostnað gæða og þróunar spítalans til lengri framtíðar og ásættanlegs þjónustuaðgengis fyrir önnur hverfi en bara miðborgina sjálfa. Hvað þá landsbyggðina alla. Jafnframt óska borgaryfirvöld, til að bæta gráu á svart, að flugvöllurinn hverfi alfarið úr Vatnsmýrinni í framtíðinni og þar sem þegar sér fyrir að orðnar eru miklar aðgangshindranir fyrir væntanlegt sjúkraþyrluflug að spítalanum (með lokun neyðarbrautar og íbúa/hótelbyggðar við NA enda á Valslóðinni) sem og þegar skert öryggi fyrir allt sjúkraflug til spítalans í misjöfnum veðrum. Samtals um 1000 sjúkraflug á ári í dag. Allt til að þókknast stefnu borgaryfirvalda að „þétta miðbæinn sem mest“, í stað að þéttingu íbúabyggða í úthverfum borgarinnar allrar og jafnari aðgangs að atvinnutækifærum nálægt sinni heimabyggð, hvar svo sem menn búa. Eins að tryggja ekki frekar samgöngur betur milli hverfa og stofnbrauta úr öllum áttum kringum höfuðborgarsvæðið og hugmyndin að borgarlínu vissulega gerir að vissu marki, svo langt sem hún nær.

Ábyrgðin á framkvæmdum við Hringbrautarlóð nú er auðvitað Alþingis og ríkisstjórnar landsins og sem virðist taka þátt í blekkingarleik Reykjavíkurborgar heilshugar gagnvart þjóðinni, enda hentar ölmusuaðferðin til reksturs heilbrigðiskerfisins mönnum best á þeim bænum. Nú líka á einum mestum hagsældarárum Íslandssögunnar og sem margoft hefur verið bent á hjá SBSBS (Samtökum um betri spítala á betri stað) og víðar þessa dagana.

Hér má finna grein Vilhjálms á Pressunni

Comments

comments