Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að horfa þurfi á heildarmyndina þegar rætt er um ferðaþjónustuna og framtíð hennar hér á landi. Hún hafi vissulega þungar áhyggjur af því að ferðaheildsalar séu byrjaðir að afbóka ferðir hingað til lands vegna óhagstæðs gengis enda sé það nýtt. Hún ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í gær og vísir.is tók málið síðan upp.  Hún sagði meðal annars:

„Það er svolítið það sem manni hefur fundist síðustu mánuði og ár svo sem eins og stjórnvöld, Seðlabankinn eða hver það er bara hafi ekki haft fulla trú á greininni, haldi að þetta sé einhver bóla sem muni springa en ferðaþjónustan er ekki bóla sem mun springa.“

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi tók þessi ummæli Helgu á lofti og gagnrýnir hann ferðaþjónustuna fyrir að greiða allt of lág laun. Vilhjálmur ritaði á Facebook vegg sinn:

„Það má vel vera að þetta sé ekki bóla sem muni springa, blessunarlega er farðaþjónustan að skila þjóðarbúinu um eða yfir 500 milljörðum í gjaldeyristekjur á ári.

Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af hvað ferðaþjónustuna varðar eru lág laun sem bjóðast þeim sem í greininni starfa. Nægir að nefna að hópferðabílstjórar eru með einungis 1.600 krónur á tímann eftir 10 ára starf eða sem nemur um 279 þúsundum fyrir fulla dagvinnu á mánuði.

Ætlar einhver að halda því fram að atvinnugrein sem veltir 500 milljörðum geti ekki greitt hópferðabílstjórum hærri laun en 279 þúsund á mánuði fyrir fulla dagvinnu þar sem þeir bera ábyrgð á allt að 70 farþegum og það oft við erfiðar aðstæður á þröngum þjóðvegum landsins?

Ég hef sagt það áður og segi það aftur, þetta er okkur til skammar eins og svo mörg önnur mál er lúta að lélegum launakjörum verkafólks, því miður!“

Comments

comments