Grafík sem birtist á visir.is með frétt þeirra

Grafík sem birtist á visir.is með frétt þeirra

Í framhaldi af fyrirspurn frá Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkonu Vinstri grænna til umhverfisráðherra um magn útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum flugfélögum hefur ýmislegt áhugavert komið í ljós. Visir.is birti frétt um málið sem Sveinn Arnarsson skrifaði.  Þar kemur fram að samkvæmt gögnum frá Eurocontrol losa íslensk flugfélög 0,0154 tonn af koldíoxiði á hvern floginn kílómetra. Íslensku flugfélögin tvö fljúga um 85 milljón kílómetra á þessu ári og því eru um háar tölur að ræða. Með fréttinni birtist grafísk skýringarmynd sem sýnir að íslensku félögin tvö eru að ná stóriðjunni hvað útblástur varðar. Flugfloti íslensku flugfélaganna WOW og Icelandair losar jafn mikið magn gróðurhúsalofttegunda í ár og álverin hér á landi. Með sívaxandi straumi ferðamanna hingað til lands er líklegt að fyrirtækin tvö muni losa meira en álverin í komandi framtíð.

Þorsteinn Þorsteinsson ritaði grein á mbl.is þar sem hann fjallar að hluta til um þetta sama mál. Þar segir Þorsteinn:

„Íslenskur ferðaiðnaður hefur vaxið með glæsibrag á undanförnum árum, jafnvel svo að undrum sætir. En er ferðaþjónustan jafn vistvæn og af er látið? Er kannski ástæða til að beina sjónum að umhverfisáhrifum þessarar atvinnugreinar og þá ekki síst hraðvaxandi umferð um flugvöllinn í Keflavík? Ferðaþjónustutengt flug til og frá Íslandi er nefnilega orðið að stóriðju sem losar mikið magn af gróðurhúsalofttegundum. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af koltvísýringi að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé miðgildið (150) heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn koltvísýrings sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári. Við bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri, m.a. vegna þess að mengun flugvéla leiðir beint í ósonlagið.“

Í grein sinni bendi Þorsteinn einnig á grein eftir Örnólf Thorlacius í Morgunblaðinu árið 2007, undir fyrirsögninni „Loftmengun í loftferðum“ þar kemur fram að mengun í háloftunum er allt að fjórum sinnum skaðlegri en af sömu efnum á jörðu niðri.

Veggurinn fékk grafískan hönnuð til þess að taka frábæra skýringarmynd sem birtist með frétt Sveins á Vísir.is og lagfæra hana með þeim hætti að taka allt millilanda flug til og frá Íslandi samkvæmt grein Þorsteins og setja það inn í grafíkina í stað þess að sýna bara íslensku félögin tvö.

Breyting á skýringarmynd Veggurinn.is

Upphafleg skýringarmynd visir.is – Breyting Veggurinn.is

Ljóst er að losun gróðurhúsalofttegunda vegna ferðamanna á íslandi er umtalsverð og þörf fyrir mótvægisaðgerðir eru miklar. Minnihluta af þessum útblæstri má heimfæra á flug íslensku félaganna Icelandair og Wow. Alþjóðleg umferð ýmissa rekstraraðila skýrir hér mikið.

 

 

 

Comments

comments