Þórður Snær Júlíusson er ekki fjölmiðlamaður heldur þátttakandi í stjórnmálum.
Þórður Snær Júlíusson skrifar greinina, Hver ætlar að hýsa íslensku rasistana? í Kjarnanum 18. desember sl. og vegur þar ómaklega að mér fyrir þau orð sem ég hef haft upp í umræðunni um hælisleitendur og flóttamenn en sannarlega á ekki að ræða málefni þeirra í sömu andránni. Þórður Snær nafngreinir einnig í sömu grein Vigni Frey Andersen fyrir ummæli sín í Mbl. um að Íslendingar ættu ekki að taka við fleiri flóttamönnum vegna þess hvernig staðan er á Íslandi þar sem þurfi að huga að öldruðum og öryrkjum. Hann bætir við í niðrandi tón „Lottó-kynnirinn er einn af fjölmörgum Íslendingum sem kjósa að nota öryggi sem afsökun gagnvart óþoli gagnvart fólki sem er öðruvísi en hann sjálfur.“

Ég upplifi umræðuna þannig að hver sá sem stígur fram þurfi að vera sérfræðingur í trúarbragðafræðum, íslam eða málefnum flóttamanna og hælisleitenda svo mark sé á honum tekið. Ég held að ég og Vignir Freyr séum eins og almenningur sem ræðir þessi mál sín á milli, upplifi þann vanda sem fylgir aukinni aðsókn hælisleitenda og flóttamanna til N-Evrópu. Ísland er þar ekki undanskilið og fólk hefur áhyggjur af öryggismálum lands og þjóðar. Það þarf enga sérfræðiaðstoð til að átta sig á því að auðvitað fylgja því einnig áhætta að opna landamærin án þess að auka eftirlit. Í því ljósi má benda á umræðuna í nágrannalöndum okkar en þær þjóðir eru að herða landamæraeftirlit. Evrópuþjóðir eru þessa dagana að ræða hvernig hægt er að stoppa í götin á landamæravörslu ríkjanna og sum þeirra hafa slálokað landamærunum meðan unnið er að lausn vandans. Ég held að almenningur hafi áhyggjur af þessum málum og vilji að þau séu skoðuð með sama hætti og nágrannaþjóðir okkar eru að gera. Manndráp og sprengjutilræði i næstu nágrannalöndum eru víti til varnaðar og um leið og við höldum okkar striki og daglegt líf ganga sinn vanagang verðum við að huga að öryggi og eftirliti. Ég deili þessum áhyggjum með almenningi á Íslandi. Það má allavega ræða það þó ekki væri annað.

En Þórður Snær Júlíusson gengur sofandi að feigðarósi og vill opna hér allar gáttir til að hleypa inn hælisleitendum og flóttamönnum og rökin eru svo við höfum nóg af fólki til að ala önn fyrir okkur í ellinni. Í hans huga eru flóttamenn og hælisleitendur matarkista framtíðarinnar. Þeir sem eru honum ekki sammála eru síðan úthrópaðir rasistar, vondir menn og konur. Aumkunarverður og röklaus málflutningur reiða mannsins sem elur á hatri og afbrýðisemi út í náungann. Skrifin Þórðar Snæs eru aldrei uppbyggileg. Þau eru flest þannig gerð að þau ýta undir úlfúð og andúð. Af hverju leggur hann ekki metnað í að vera með upplýsandi umræðu sem dregur fram mismunandi sjónarmið? Af hverju er metnaður “ritstjórans” ekki meiri í þá átt?

Bloggfjölmiðlar ættu að upplýsa um pólitísktengsl og hagsmunatengsl.

Skrif Þórðar Snæs endurspegla allt það sem er að umræðunni í dag. Reiðir Bloggfjölmiðlamenn reyna að hafa áhrif á ákvarðanir og atburðarás stjórnmálanna meðal annars með því að þagga niður umræðuna og stimpla fólk úr ákveðnum flokkum með neikvæðum formerkjum. Ef einhver er með aðrar skoðanir en vinstraliðið í skotgröfunum þá eru viðkomandi úthrópaður, umræðan kölluð hatursumræða og fólk stimplað rasistar. Þetta er vandamálið að umræðan kemst ekki lengra og ég skynja það að fólk í kringum mig hefur af þessu áhyggjur. Þetta er skoðanakúgun. Við verðum að geta viðrað ólíkar skoðanir og ólík viðhorf til að fá bestu niðurstöðuna.

Þórður Snær vill einhliða umræðu og er óspar á stóru orðin í skrifum sínum. Hann ætti frekar að horfa sér nær. Fólk er beinlínis skotið niður og úthrópað rasistar. Lýðræðið snýst meðal annars um málefnalega umræðu hjá hópi fólks með ólíkar skoðanir. Þegar hún þróast með þessum hætti og bloggarar eins og Þórður Snær, sem kalla sig fjölmiðlamenn en eru í raun þátttakendur í stjórnmálum, hann er úlfur í sauðagæru. Þórður Snær og hans líkir hafa þann eina tilgang að fæla fólk frá umræðunni og hafa þannig áhrif á viðhorf almennings. Árás hans á Vigni Frey er liður í því að þagga niður í almenningi og fæla fólk frá með því að gera lítið úr skoðunum þess sem birtast opinberlega.
Ég vísa ummælum Þórðar Snæs um að ég sé rasisti til föðurhúsanna. Virðing hans fyrir innflytjendum birtist í þeirri skoðun hans að þeir séu nógu góðir til að ala önn fyrir þjóðinni í ellinni, en eru ekki mínar skoðanir. Ég mun áfram leggja þeim málstað lið að Íslandi verði öruggt og gott land til að búa í. Að það fólk sem kýs að flytja til landsins búi í sátt og samlyndi með friðsamri þjóð og gera gildi þjóðarinar að sínum. Ég velti því fyrir mér hvar í slíkri friðsæld við hýsum rasista umræðunnar eins og Þórð Snæ Júlíusson, en hann og hans líkir hafa ekki hafa áhrif á mig, ég stend með lýðræðinu, og frjálsri umræðu.
Ég er ekki rasisti.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður

Comments

comments