Veggurinn hefur ítrekað bent á alvarlega bresti í fréttamati og fréttaflutning fréttastofu RÚV. Sama má segja með Morgunblaðið sem í gær 20. desember 2016 tók málið upp í leiðara sínum. Í honum segir:

„Hvað er að hjá fréttafólki á „RÚV?“ Það eru endalaus dæmi um það að hópurinn er á róli sem þeir einir eru á sem telja sig mega vera í sérstökum erindum. Enginn á þessari Fréttastofu sér nokkuð að því að gera stórkostlegan manna- og flokkamun, eftir því sem stjórnmálalega afstaðan segir því. Það heldur að það dugi að gæta þess að borga ekki flokknum og sleppa við flokksskírteinið, þá gruni engan nokkuð ljótt. Óséða flokksskírteinið yfirskyggir þó öll efnistök og umgengni.“

Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í gær en þar er fréttastofa Ríkisútvarpsins harðlega gagnrýnd og tiltekin nokkur dæmi um einkennilega framkomu fréttamanna þar.

„Fréttamaður sem kallar forsætisráðherrann „feita karlinn“ þegar hann er að spjalla við fólk úr öðrum flokkum sér ekkert að því fyrr en athugasemd er gerð og þá virðist Útvarpinu þykja óþægilegast að upp komst um strákinn Tuma. Viðbrögðin eru þó eingöngu til málamynda. Þekktur útvarpsmaður vitnaði þó um að þessi dónapésaháttur væri ekki einsdæmi.

Fréttastofan hefur lagt tiltekna menn og flokka í einelti árum saman og hampað öðrum. Aldrei er á neinu tekið þar innanbúðar. Sagt var frá því í tilkynningu fyrir nokkrum árum að útvarpsstjóri hefði verið ráðinn. Ekkert hefur frést af honum síðan. Fréttakona „RÚV“ á Akureyri sem leynir því minna en sumir kollegarnir hversu vilhöll hún er bað Sigmund Davíð, sem hún rekur iðulega hornin í, um viðtal í tilefni aldarafmælis Framsóknarflokksins. En erindið var að gera Sigmund tortryggilegan fyrir að sjást lítið í þingsalnum.

Hefur þessi fréttakona yfirlit um það hverjir sjáist í þingsalnum? Veit hún ekki að þingmenn fylgjast með umræðum á skrifstofum sínum og geta þá nýtt tímann á meðan fráleitasta umræðan gengur yfir?“

 

Áfram er ritað í leiðara Morgunblaðins.

„Fréttakonan reyndi að skrökva sig frá því að hún hefði fengið viðtal við Sigmund á fölskum forsendum. Þó er þetta haft eftir henni: „Ég hafði óskað eftir viðtali við hann í tilefni dagsins með SMS-skilaboðum, en engin svör fengið. Við ákváðum því að fara á staðinn og kanna hvort hann myndi veita viðtalið. Sigmundur Davíð tók mér vel og bað mig að bíða andartak, áður en við tókum viðtalið. Hann spurði mig aldrei um efni þess fyrirfram, eins og stjórnmálamenn gera þó gjarnan.“ Telur fréttakonan að biðji hún um viðtal við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins í tilefni aldarafmælis, þá beri honum að spyrja hvort viðtal um aldarafmæli flokksins fjalli um aldarafmæli flokksins?“

Greinilegt er á þessum skrifum og viðbrögðum við þeim að smátt og smátt er fólk að átta sig á því að ekki er allt með felldu  á fréttastofu ríkisins sem rekin er af RÚV. Fréttastofu sem hefur mikið ríkari skyldur en aðrir fréttamiðlar.  Stofnunin er langt fyrir utan það að virða eigin siðareglur oft á tíðum. Æpandi þögn þeirra sem stýra þessari stofnun er sláandi og við hana verður ekki búið mikið lengur. Þar sem að málið er hápólitískt er áhugavert að sjá fótgönguliðana henda sér í skotgrafirnar og reyna að taka til varna án þess að hafa fyrir því að gera sjálfstæða athugun á málinu. Hér skiptir öllu að geta sett sig í spor annarra og vegið og metið hvort að sannmælis hafi verið gætt.

Ríkisútvarpið er á forræði menntamálaráðherra Illuga Gunnarssonar sem hefur ekki haft dug til þess að taka á þessu máli. Enda ekki auðvelt fyrir stjórnmálamann að reyna að taka til í stofnuninni. Dæmi um það er hvernig stofnunin réðist harkalega að æru Eyþórs Arnalds í kjölfar skýrslu nefndar sem hann stýrði. Tillaga sem sett var fram af fyrrverandi menntamálaráðherra Birni Bjarnasyni um opinbera rannsóknarnefnd er því líkast til góð byrjun á því  verkefni að ná utan um vandann.

Comments

comments