Í gær 21. febrúar 2017 mætti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í viðtal á Rás 2 ásamt Þorsteini Víglundssyni, húsnæðismálaráðherra. Þetta var viðtal sem áhugavert var að hlýða á. Dagur borgarstjóri gerir sér takmarkaða grein fyrir hlutverki sínu og ábyrgð, og reynir hann á aumkunarverðan hátt að kenna öðrum eins og bæði fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi um ástandið á húsnæðismarkaði.  Hann sagði í þessu viðtali:

„Mér fannst ný ríkisstjórn skila svolítið auðu í húsnæðismálunum. Það er ekkert um húsnæðismál í nýjum stjórnarsáttmála, það eru engin svör fyrir ungt fók sem vill þá fara inn á þennan kaupendamarkað. Ég er búinn að vera að suða um það við ríkisstjórn, hina fyrri, í nokkur ár, að það eru nokkur dauðafæri innan borgarmarkanna, þar sem hægt er að byggja og byggja hratt og það eru lönd í eigu ríkisins,“

Þarna er Dagur meðal annars að vísa í Vatnsmýrarlandið undir Reykjavíkurflugvelli sem er að miklu leiti í eigu ríkis. Það er til nóg af landi innan borgarmarkanna oft hafa bæði Sjálfstæðismenn og Framsókn og flugvallarvinir talað fyrir því að úthlutað yrði lóðum í Úlfarsárdal eins og gert er ráð fyrir í skipulagi hverfisins. Lóðaskortsstefnan hans Dags sem hefur verið rekin einarðlega frá 2010 er ekki að ganga upp. Einstrengisleg þéttingarstefna á byggð á dýrustu hverfum borgarinnar, á lóðum í eigu fasteignafélaga hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Sérstaklega hefur þetta komið illa niður á ungu fólki.

Þorsteinn segir að það vanti litlar og meðalstórar íbúðir. Venjulegar íbúðir, en ekki dýrar íbúðir á þéttingareitum. Hann kallar eftir samvinnu sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hann telur að það sé ýmislegt sem ríkisvaldið geti gert til þess að rétta kúrsinn. Gott og vel gefum nýjum ráðherra svigrúm til þess að koma fram með tillögur í þá átt. En ekki of langan.

Eftir situr að lítið er byggt af fasteignum sem ætlaðar eru í söluferli í borginni. Fasteignafélögunum er látið eftir að byggja íbúðir á dýrustu stöðunum, á þeim hraða sem þjónar þeirra hagsmunum best. Það er áhugaverð staðreynd sem Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina hefur bent á. Fyrstu 31 mánuð kjörtímabilsins úthlutaði borgarstjóri einungis fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum, þar af var ein þeirra boðin út á almennum markaði, þ.e. Tryggvagata 13, tvær af þessum fimm voru til eldri borgara, ein til Búseta og ein til Félagsbústaða til að byggja sex íbúða sambýli.

Ljóst er af viðbrögðum borgarstjóra að hann er ekki að leita lausna á húsnæðisvanda ungs fólks, heldur þvert á móti er hann að leggja sig fram um að beina ungu fólki í fangið á leigufélögum sem eru nýjasta afurð þeirra sem leita að leiðum til þess að ávaxta fé sitt meira en markaðurinn býður á hverjum tíma.

Comments

comments