Vilhjálmur Birgisson skrifar á Facebook:

Hugsið ykkur að frá hruni hafa viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, skilað í hagnað fyrir skatta samtals 656,7 milljörðum. Takið eftir hagnaðurinn er 656,7 milljarðar frá árinu 2009 til ársloka 2016.

Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að hluti af þessum hagnaði er einskiptishagnaður, t.d. þegar verið var að uppfæra eignasafnið sem nýju bankarnir fengu með gríðarlegum afslætti frá gömlu bönkunum.

Þessi ofsahagnaður viðskiptabankanna sýnir líka hvernig farið var með heimili og fyrirtæki eftir hrun þar sem afslættinum var einungis skilað að litlu leyti til heimila og fyrirtækja.

Þessu til viðbótar sýnir þessi hagnaður hvernig okurvextir, verðtrygging og stóraukning á hinum ýmsu þjónustugjöldum bankanna er að mergsjúga íslenskan almenning.

Hvernig má það vera að stjórnvöld láti þetta allt átölulaust ár eftir ár? Enda stenst það ekki nokkra skoðun að bankar sem hafa það meginhlutverk að geyma og lána peninga til sinna viðskipta“vina“ séu búnir að hagnast um 656,7 milljarða frá hruni.

Við stjórnvöld vil ég segja enn og aftur: farið nú að standa með almenningi og hætta þessu skefjalausa dekri við fjármálaöflin sí og æ!

Meðfylgjandi mynd sýnir sundurliðaðan hagnað þessara þriggja banka frá árinu 2009 til 2016.

Comments

comments