Jón Gunnarsson samgönguráðherra tilkynnti í gær að til stæði að hefja á næsta ári byggingu nýrrar flugstöðvar í Vatnsmýrinni. Viðbrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og eins helsta baráttumann þess að flugvöllurinn í Vatnsmýri víki voru hjákátleg. Fyrst vildi hann meina að flugstöðin yrði að vera byggð úr færanlegum einingum þannig að flytja mætti húsin í burtu síðar og síðan bætti hann við í viðtali við visir.is og sagði

„Borgin hefur kallað eftir að það verði tekin afstaða á grundvelli niðurstöðu Rögnunefndar sem dregur fram góðan kost í flugvallarmálum,“ segir Dagur sem finnst fyllilega tímabært að ríkið, Reykjavíkurborg, flugrekstrar­aðilar og fleiri setjist yfir niðurstöður nefndarinnar.“

Þetta er dæmigert fyrir borgarstjóra loðin og óskýr svör. Rögnunefndinni var á sínum tíma eingöngu að skoða aðra kosti en áframhaldandi flugvöll í núverandi mynd í Vatnsmýri. Með þeim annmörkum kom Hvassahraun best út að mati Rögnunefndarinnar. Því er algerlega rökrétt af samgönguráðherra að láta meta alla kosti heildstætt. Er Hvassahraun betri kostur en Vatnsmýrin? Er ein af þeim spurningum sem verður að fá svar við. Síðustu daga hefur komið í ljós hjá formanni svæðisskipulags á Suðurnesjum að Hvassahraun er eitt helsta vatnsverndarsvæði Suðurnesja. Það vissulega setur hugmyndir um Hvasshraun sem flugvallarstæði í ákveðið uppnám.

Það vekur líka athygli að tveir samráðherrar Jóns tjá sig um þessi mál. Björt Ólafsdóttir Umhverfisráðherra vill flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni.

„Ég ætlast til að fólk vinni eftir þeim sáttmála sem lagður er fyrir ríkisstjórnina. Annars er fólk að fara fram úr sínu umboði,“ segir Björt í viðtali við visir.is.

Það er engin sáttmáli til um þetta mál, þessu máli hefur verið þrýst áfram af fólki sem hefur ekki umboð borgarbúa til þess að ganga fram með þessum hætti.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tjáði sig í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter og sagði

„framtíð innanlandsflugs væri ekki í Vatnsmýri. Að ætla annað væri sóun á dýrmætum tíma og peningum.“

Þorgerður ætlar sjálfsagt að upplýsa þjóðina hvað það kostar ríkið (skattborgara þessa lands) að byggja flugvöll á nýjum stað og rökstyðja að þeim peningum sé vel varið. Eða kannski vill hún að innanlandsflug verði fært til keflavíkur og aðgengi landsbyggðar að öryggisþjónustu og stjórnsýslu verði þannig stórlega skert.

Sá þankagangur að það hljóti að vera full boðlegt fyrir landsbyggðarfólk sem kýs að búa úti á landi, að lengja ferðatíma sinn til borgarinnar um 90 til 120 mínútur í hvora átt. Er engan veginn boðlegur eða sanngjarn.

Það er staðreynd að það tekur um 45 til 50 mínútur að keyra frá Keflavíkurflugvelli í miðborg Reykjavíkur. Það er líka staðreynd að Keflavíkurflugvöllur er alþjóðaflugvöllur þar sem öll umferð um völlinn er háð strangri öryggisgæslu. Þetta tefur afgreiðslu og lengir ferðatíma.

Kjarni málsins er þessi. Engin ákvörðun liggur fyrir um það að færa eða leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Meirihlutinn í borginni er að reyna að hrekja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni með því að misnota það skipulagsvald sem borgin hefur. Ef fram heldur sem horfir verður að taka þetta vald af borginni. Færa skipulagsvald yfir alþjóðlegum flugvöllum landsin til ríkisins. Því fyrr, því betra.

 

 

Comments

comments