Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum ritar færslu á Facebook þar sem hann skýrir sitt sjónarmið vegna þeirra deilna sem hafa staðið um framkvæmd þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum. Færslan er vel skrifuð og sem flestir ættu að lesa hana. Því er hún því birt hér í heilu lagi.

„Að gefnu tilefni:
Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvaða hljómsveitir spila á þjóðhátíð og ekkert er fjær mér en að hvetja til þess að fjölmiðlar fái upplýsingar sem spillt geta rannsóknarhagsmunum og aukið bráða kvöl og pínu fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis. Mér finnst hinsvegar skipta máli að við sameinumst í baráttunni gegn þeim viðbjóði sem kynferðislegt ofbeldi er frekar en sundra.

Það er viðurstyggilegur veruleiki þessarar litlu friðsælu þjóðar að árið 2014 var fjöldi tilkynntra kynferðisbrota 419. Það er sennilega toppurinn á þessum ísjaka mannlegs harmleiks. Á bak við þessa tölu -419- eru þúsundir sem þjást. Fórnarlömb, makar, systkin, foreldrar og í raun samfélagið allt. Þettu eru sár sem aldrei gróa og svipting lífsgæða sem aldrei verður aftur unnin.

Ég veit að allir þeir sem tjá sig þessa daga vilja fyrst og fremst mæta þessum vanda.

Þeir listamenn sem sem nú skoða hvort þeir eigi að spila á þjóðhátíð eða ekki vilja að við ræðum þessi mál opið og einlæglega. Það er í mínum huga ekkert nema sjálfsagt og eðlilegt svo fremi sem það sé gert á yfirvegaðan máta með það að leiðarljósi að draga úr líkum á kynferðislegu ofbeldi.

Lögreglan vill gæta að öryggi almennings, rannsóknarhagsmunum og tryggja öryggi fórnarlamba. Það er líka sjálfsagt og eðlilegt.

Þjóðhátíðarnefnd vill veita gestum þjóðhátíðar öruggt umhverfi og færa þeim svo góða skemmtun sem mögulegt er. Það er sjálfsagt og eðlilegt.

Stígamót, sálgæsluteymi þjóðhátíðar og neyðarmóttaka Landsspítalans vilja tryggja að ef upp kemur kynferðisafbrot þá verði fórnarlömbum veitt góð og fagleg þjónusta. Það er sjálfsagt og eðlilegt.

Með það veganesti mun ég í dag ræða við fjölmiðla, listamenn, þjóðhátíðarnefnd, lögreglu og aðra sem þátt vilja taka í baráttunni gegn þeim viðbjóði sem kynferðisleg misnotkun er.

Sameinumst frekar en sundra.“

Comments

comments