Samsett mynd af visir.is

Samsett mynd af visir.is

Á að veiða og sleppa eða veiða og drepa? Um þessa valkosti hefur verið tekist hressilega á, síðustu daga. Enda hér á ferð miklir hagsmunir. Þessi deila snertir einnig sjálfsmynd og upplifun veiðimanna af sjálfum sér sem umhverfisvænum, grænum einstaklingum sem umgangist náttúruna af mikilli virðingu. Þannig að ýmsar pillur hafa flogið sem byggðar eru á tilfinningu en ekki skynsemi.

Allt hófst þetta með því að Gísli Jónsson, sem er sérgreinadýralæknir og sérfróður í fisksjúkdómum hjá Matvælastofnun tjáði sig um erlendar rannsóknir sem sýna að algengt sé að 20 til 30 prósent af þeim löxum sem eru veiddir og svo sleppt, drepist sjö til tíu dögum eftir að þeim er sleppt. Ummæli Gísla um að veiða/sleppa aðferðin jaðri við dýraníð fór illa í margan veiðimanninn. Upp til hópa leggja veiðimenn sig fram um að ganga um náttúruna af virðingu og alúð eins og þekking þeirra býður hverju sinni.

Þekktir veiðimenn eins og Arthúr Bogason, Bubbi Mortens og margir fleiri hafa tjáð sig um málið af miklum tilfinningahita. Jafnvel gengið svo langt að ásaka Gísla um að ganga erinda fiskeldisfyrirtækja.

Guðmundur Valur Stefánsson ritaði á Facebook síðu sína:

„Ég er sjávarlífræðingur frá Hásólanum í Bergen og afar kunnugur löxum og þeirra viðkvæmni. Ég vil bara vitna að allt sem fram kemur frá Yfirdýralækni Fiskisjúkdóma í þessari grein er hárrétt. Lax er ótrúlega viðkvæmur fyrir hverkinns meðhöndlun, má varla blása á hann til að starta sveppasýkingu og/eða sáraþróun.“

Þannig virðist þessi deila vera þannig vaxin að þeir sem hafa sérmenntun á sviði fiskisjúkdóma eða fiskilíffræði virðast sammála um að veiða/sleppa aðferðin sé vafasöm og laxinn mikið viðkvæmari en menn hafa talið hingað til. Þeir sem telja að þetta sé rangt, byggja helst á reynslu sinni og upplifun við veiðar.

Er ekki rétt að menn sannmælist um að setja í gang verkefni þar sem þetta er skoðað sérstaklega. Ég er viss um að veiðimenn vilja ganga vel um náttúru landsins. Það ætti því ekki að vera svo flókið að skoða málið nánar. Ekki nema ef fjárhagslegir hagsmunir og uppblásin egó þvælist fyrir.

Comments

comments