Sveinn Hjörtur Guðfinnsson skrifar:

Íslensku olíufélögin hafa verið kærð fyrir samráð og forstjórar reyndu að sverja af sér verðsamráð. Einn af þeim forstjórum sem uppvís var um svindl og samráð var valinn til að vera borgarstjóri Reykjavíkur. Hann varð svo að segja af sér sem borgarstjóri þegar upp komst um svikin. Þessi maður er forstjóri samgöngumála í dag – Samgöngustofu!

Það hefur alltaf verið þannig á Íslandi að olíufélögin þykjast vera í harðri samkeppni. En þegar upp er staðið er kjarkleysið ekkert og lækkunartölur á eldsneyti er sýndarmennska því eina vikuna er Olís með lægsta verðið, svo N1, Orkan, og svona þvælist listinn af lækkuðu eldsneyti fyrir framan neytendur og við erum viss um að allt sé í góðu.

Svo kemur Costco á markaðinn og slær listann út. Þeir setja olíurisana í vandræði sem bíða eftir að Costco hækki aftur bensínið sem nemur listanum góða og þannig séu allir eldsneytissalar vinir og keppnin er bara um kleinuhringi og pylsur.

Árið 1994 reyndi Kanadíski olíurisinn Irving oil að komast á íslenskan markað. Forsvarsmenn fyrirtækisins voru tilbúnir í slaginn og að gera það sem er aðalmálið hjá olíufyrirtækjum – selja eldsneyti. En þeir Irving-feðgar áttu ekki til orð þegar reyndi á að semja við íslensk stjórnvöld með leyfi, lóðir og annað, enda bullandi og algjörir hagsmunir íslenskra stjórnmála- og embættismanna sem voru tengdir með ýmsum hætti í íslensku olíufélögin. Það merkilega er að það er ennþá þannig í dag árið 2017 eins og alþjóð veit enda enn eitt dæmið um hagsmunatengsl og hér vitna ég í hagsmuni forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar og tengsla hans og fjölskyldu hans til dæmis með N1.

Í dag er frétt um að Skeljungur ætli að kaupa 10-11 en þær verslanir eru með dýrasta verðlag á landinu og hafa verið uppvísar að hækka verð sérstaklega gagnvart ferðamönnum ásamt því að selja kleinuhringi og kaffi.

Forstjóri Olís segist ætla að bíða eftir því að Costco sýni næsta leik og hækki aftur nærri listanum góða enda sé örugglega um opnunartilboð að ræða hjá Costco. Olís er undir Högum sem eru einmitt skíthræddir við Costco og vita að þjóðin er búin að fá nóg að vera nídd og logið sé að henni um mikilvægi og nauðsynlegri hárri álagningu á eldsneyti fyrir íslenska neytendur sem er kjaftæði.

Ég vona að Costco haldi þetta út og að íslenskir neytendur hjálpi til þess með öllum hætti. Ég vona líka að Costco láti ekki stjórnast af hótunum íslensku olíufélaganna. Að lokum vona ég að embættismannakerfið og stjórnmálamenn með eiginhagsmunapot séu gerðir burtrækir úr íslensku samfélagi. Við þurfum byltingu og hún er á vissan hátt hafin með flottum dansi Costco inná íslenskan markað!

Comments

comments