Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar á Facebook:

Ef 5.000 og 10.000 kr. seðlar verða teknir úr umferð er með því verið að koma í veg fyrir notkun á seðlum og mynt almennt og færa öll viðskipti yfir á stafrænt form.

Við það er ýmislegt að athuga. Eitt er að Seðlabankinn (ríkið) hefur verulegan myntsláttuhagnað af útgáfu myntar og seðla. Í Bandaríkjunum kostar u.þ.b. 5 kr. að prenta ódýrari seðla en 15 kr. að prenta þá dýrari.
10.000 króna seðillinn íslenski er reyndar frekar „dýr“. Stykkið kostar 20 kr. en fyrir þær 20 kr. fær Seðlabankinn 10.000 kr.

Þegar seðillinn var kyntur til sögunnar, árið 2013, áætlaði Viðskiptablaðið að myntsláttuhagnaðurinn af fyrstu prentun næmi um 40 milljörðum króna.

Með áformum fjármálaráðherra hverfur myntsláttuhagnaðurinn en allur ávinningur af óeiginlegri „peningaprentun“ verður eftir hjá bönkum og kortafyrirtækjum sem þá verða auk þess komin með aðstöðu til að innheimt sérstakt gjald fyrir alla notkun peninga. Enginn mun geta keypt mjólk eða brauð eða aðrar vörur og þjónustu án þess að borga sérstakt gjald fyrir það (ætli sé þá líklegt að gjaldið muni hækka eða lækka?).
Svo eru auðvitað ótal álitamál sem tengjast persónufrelsi nú á tímum þegar alþjóðafyrirtæki safna upplýsingum um allt sem fólk gerir.

Þetta fyrirkomulag gengur gegn mörg-þúsund ára hugmynd um frjálsan gjaldmiðil. Þ.e. að almenningur gæti átt verðmæti og ráðstafað þeim að vild án leyfis frá keisaranum, furstanum eða einhverjum milliliðum.

Kenndi þessi ríkisstjórn sig ekki við einhvers konar nútíma frjálslyndi?

Comments

comments