Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík mynd af vef álversins

Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík
mynd af vef álversins

Eins og öllum er orðið ljóst nú, stendur yfir alvarleg vinnudeila í álverinu í Straumsvík. Hún er sérlega alvarleg í því ljósi að ef til þess kemur að slökkt verði á verinu þá eru ekki miklar líkur á því að kveikt verði á vinnslu þar aftur.

Tjónið sem af þessu hlýst er umtalsvert meira en sýnist í fyrstu. Þarna munu hverfa u.þ.b. 10% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, Landsvirkjun mun verða fyrir umtalsverðu áfalli vegna tekjumissis. En líkast til verður höggið mest fyrir Hafnarfjörð sem verður af milljörðum í hafnar-, fasteigna- og aðstöðugjöldum ýmiskonar auk skatttekna af 1500 vel launuðum störfum, en þá eru talin með ýmis afleidd störf.

Það er athygli vert að eigendur þessarar verksmiðju virðast hafa sætt sig við að álverið loki. Það er allavega ekki mikill kraftur í að leysa þann hnút sem uppi er. En hversvegna? Flest bendir til þess að hér skipti mestu máli sé raforkusamningur sem Landsvirkjun gerði við álverið á árinu 2010. Þá var bullandi uppsveifla á álmörkuðum og bjartsýni yfir samningagerðinni. Samið var um umtalsverða hækkun og tenging sú sem var við verð á álmörkuðum var afnumin. Síðan þá hefur þetta háa verð sem greitt er fyrir orkuna gert álverið óarðbært og skaðað samkeppnishæfni þess.

Með því að glugga í bréf það sem Rannveig Rist forstjóri sendi til starfsmanna í ágúst síðastliðnum má sjá að álverið hefur barist í bökkum síðustu 3 rekstrar ár. 2012 til 2013 varð 7 milljarða tap á rekstrinum. Örlítið betur gekk árið 2014 en þá var 400 milljóna hagnaður sem er ekki nema 0,3% arðsemi á eigið fé. Sama í hvaða samanburð það er sett. Arðsemin er of lítil og líkast til telja eigendur ekki mögulegt að ná þessari arðsemi upp miðað við forsendur á þeim markaði sem álverið starfar á. Þess vegna er lítill eða engin áhugi á því að leysa deiluna. Það er minni áhætta og líkast til minni kostnaður fólgin í því að loka en að reka verksmiðjuna áfram í núverandi starfsumhverfi.

Þetta vandamál er langt frá því að vera sér íslenskt. Nákvæmlega sama staða kom upp í Kanada fyrir skömmu. Þar brugðust yfirvöld og orkufyrirtækin við ástandinu með ábyrgum hætti. Endursamið var um orkuverð og það tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Víst er að með þessum aðgerðum komu kanadísk yfirvöld í veg fyrir að álverum þar í landi væri lokað í stórum stíl vegna óhagstæðra aðstæðna í starfsumhverfi álveranna þar.

Að sögn heimildarmanna er ljóst að ef minnsti áhugi er á því að forða þjóðinni frá efnahagslegu áfalli þarf að endursemja um raforkuverðið til Straumsvíkur. Núverandi stjórn Landsvirkjunar virðist ekki gera sér grein fyrir því hver ábyrgð þeirra er. Eina leiðin virðist því vera að ríkisstjórnin undir forystu fjármálaráðherra hafi bein afskipti af stjórn Landsvirkjunar og skipti þar út fólki og þvingi fram þjóhagslega hagkvæman samning.  Ef það gerist ekki munu eigendur Rio Tinto Alcan í Straumsvík ekki sjá neina ástæðu til þess að halda álverinu opnu eða ræsa það á ný komi til tímabundinnar vinnustöðvunar.

vg

Comments

comments