Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands var í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut. Þar fór hann yfir stöðuna í kjaramálum grunnskólakennara. „Kennarar hafa fengið sitt,“ var fyrirsögn fréttarinnar. Launamál kennara hafa verið talsvert til umfjöllunar undanfarið. Kennarar hafa í kjölfar úrskurðar kjararáðs gripið til aðgerða og nú berast fréttir um hópuppsagnir þeirra.

Í þættinum á Þjóðbraut var haft eftir Gylfa að kennarar hefðu fengið meira en tuttugu prósent launahækkun árið 2014 á meðan almennar launahækkanir hafi verið aðeins rúm tvö prósent. Það hafi síðan gerst seinna að aðrir hafi fylgt á eftir en nú séu kennarar aftur mættir og vilji aftur ríflega hækkun þegar þeir hafi þegar hækkað umtalsvert í launum.

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi er ekki par sáttur við málflutning Gylfa. Vilhjálmur ritar á Facebook síðu sína.

„Jæja, þá hefur láglaunalöggan talað!

Hvað skyldu kennarar segja við þessu inngripi frá forseta ASÍ og það í afar viðkvæma deilu þeirra. Maður sem talar svona getur aldrei kallað sig verkalýðsforingja!“

Vilhjálmur lýsir yfir fullum stuðningi við kennara og segir sorglegt að launafólk fái ekki að vera í friði í sinni kjarabaráttu fyrir forseta ASÍ.

Comments

comments