Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra steig fram til varnar krónunni á Facebook síðu sinni síðastliðið sunnudagskvöld. Þá hafði Ríkissjónvarpið sýnt þátt um Íslensku krónuna á sama tíma og á Alþingi var verið að fjalla um haftalosunarfrumvörpin. Fjármálaráðherra tekst hér á einkar öflugan hátt að draga fram hagtölur sem of lítið heyrast í umræðunni. Gefum honum orðið:

„Það er sérstök upplifun að sitja hér á Alþingi í kvöld á sunnudagskvöldi þar sem við tökum stórt skref í átt til losunar hafta. Í matsalnum er hægt að horfa á þátt Ríkisútvarpsins um íslensku krónuna. Svo virðist sem mörg viðtöl í þættinum séu tekin fyrir einhverjum misserum, jafnvel árum, en að uppistöðu til voru viðmælendur með þann boðskap að krónan væri okkar bölvun. 

Með öllu skorti á að sýna þann ávinning sem sjálfstæði í gjaldmiðilsmálum hefur fært okkur:

1. Samkeppnisstaða Íslands varð betri eftir hrun með veikari gjaldmiðli. Hinn valkosturinn hefði verið stórkostlegt atvinnuleysi.
2. Neyðarlögin hefðu verið óhugsandi án sjálfstæðis í gjaldmiðilsmálum og afar mikilvægt var að standa utan ESB og evru. Þetta var grundvöllur þess hvernig við tókum á föllnum fjármálafyrirtækjum.
3. Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið betri í áratugi.
4. Hér er atvinnuleysi um 3%, hvergi lægra í Evrópu.
5. Við upplifum nú lengsta samfellda hagvaxtarskeið seinni tíma.
6. Skuldir ríkisins fara ört lækkandi.
7. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan fyrir aldamót.
8. Verðbólga er 1,6%.
9. Hér er umtalsverður viðskiptajöfnuður og gjaldeyrisforði mikill að byggjast upp.
10. Kaupmáttur launa hefur vaxið um 11% síðasta árið.

Ég spyr mig að því hvort hér hafi önnur hlið málsins verið dregin upp á Ríkisútvarpinu og næst komi þátturinn Hin hliðin.“

Comments

comments