Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Hann er yfirgengilegur hrokinn í forseta ASÍ og forystu Samtaka atvinnulífsins en núna telja þessir aðilar að þeir þurfi nú ekkert að fara eftir alvarlegum athugasemdum sem Fjármálaeftirlitið gerði gagnvart lífeyrissjóðunum og lýtur að valmöguleika launafólks á hinum almenna vinnumarkaði að velja sér vörsluaðila til að ávaxta aukið framlag atvinnurekanda í séreignasjóð sem samið var um árið 2016.

Málið lýtur að því að forysta ASÍ og Samtaka atvinnulífsins vilja að þetta aukna framlag upp á 3,5% renni allt til lífeyrissjóðanna og launafólk fái ekki að velja sér annan vörsluaðila til að ávaxta þetta aukna framlag í séreignarsjóð.

Í harðorðu bréfi frá Fjármálaeftirlitinu til lífeyrissjóðanna 7 júlí síðastliðinn ítrekar eftirlitið að sjóðfélagar sem ráðstafa hluta í séreignasjóð ráði sjálfir í hvaða séreignasjóð það verður. Í þessu sama bréfi fer Fjármálaeftirlitið fram á við lífeyrissjóðina að þeir yfirfari heimasíður sínar og fjarlægi villandi upplýsingar um framangreint og leiðrétti fréttaflutning sinn ef tilefni er til.

Svo í gær þá kemur sameiginleg yfirlýsing frá forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þar sem ýjað er að því að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins séu svo vitlausir að þeir hafi ekkert vit á því sem þeir eru að gera athugasemdir við og forseti ASÍ og framkvæmdastjóri SA krefjast þess að Fjármálaeftirlitið endurskoði þær alvarlegu athugasemdir sem það hafði gert í skriflegu bréfi til lífeyrissjóðanna. Algjörlega magnaður hroki sem er í þessum mönnum!

En um hvað snýst þetta mál? Ég vil byrja á því að segja við íslenskt launafólk á hinum almenna vinnumarkaði að hér er um gríðarlega hagsmuni fyrir ykkur að ræða og því mjög mikilvægt að launafólk átti sig á málinu. Einnig tel ég mikilvægt að fréttamenn setji sig inn í málið og fjalli um það og útskýri fyrir almenningi um hvaða hagsmuni er hér að ræða.

En skoðum um hvað málið snýst. Í fyrsta lagi þá ber að nefna að með kjarasamningi SA og ASÍ, dags. 15.1. 2016 var framlag launagreiðenda hækkað úr 8,0% í 11,5% í þremur áföngum. Það er að segja að framlag atvinnurekenda var aukið um 0,5% 1. júlí 2016 og síðan um 1,5% 1. júlí 2017 og að lokum mun framlagið hækka aftur um 1,5% 1. júlí 2018 eða samtals um 3,5%.

Í þessum sama kjarasamningi kom fram að við endurskoðun kjarasamnings ASÍ og SA um lífeyrismál, sem ljúka átti fyrir lok maí 2016, var sagt að einstaklingum yrði heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, 3,5% auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika. Með bundnum séreignarsparnaði er átt við að settar eru þrengri skorður en gilda gagnvart öðrum viðbótarlífeyrissparnaði.

Grundvallaratriðið í þessu er að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði samþykkti í atkvæðagreiðslu að einstaklingum yrði heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, 3,5% auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar.

En hvað gerist síðan? Jú æðsta klíka ASÍ og SA gera samkomulag 15. júní 2016 í reykfylltum bakherbergjum um nýja tegund af séreign sem þeir ákveða að kalla „tilgreinda séreign“ og þeir ákveða einhliða í þessu samkomulagi að launafólki sé skylt að vera með þessa tilgreindu séreign í lífeyrissjóðunum. Með öðrum orðum launafólk má alls ekki velja sér annan vörsluaðila til að sjá um ávöxtun á þessari séreign nema hjá lífeyrissjóðunum.

Rétt er að geta þess enn og aftur að Fjármálaeftirlitið segir að þetta sé með öllu óheimilt og sjóðsfélagar eigi að geta valið sér aðila til að leggja sína séreign inn á. En þessir snillingar, þeir ætla ekkert að fara eftir því.

Forseti ASÍ og hans klíka ásamt forystu Samtaka atvinnulífsins segja að um þessa tilgreindu séreign og það fyrirkomulag sem um hana muni gilda hafi verið samið í kjarasamningum. Þetta er alrangt, það var ekkert samið um „tilgreinda séreign“ heldur bundna séreign og í kjarasamningi frá 15. janúar 2016 var alls ekkert getið um að launafólki yrði skylt að setja aukið framlag upp á 3,5% alfarið til lífeyrissjóðanna.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir átti sig á því að það fór alls engin félags- eða lýðræðisleg umræða eða kosning fram á meðal félagsmanna ASÍ um það samkomulag sem forysta ASÍ og SA gerðu 15. júní 2016 þar sem ákveðið var að öllu launafólki á hinum almenna vinnumarkaði yrði skylt að leggja aukið framlag upp á 3,5% í þessa tilgreindu séreign hjá lífeyrissjóðunum. Semsagt það er enginn kjarasamningur sem kveður á um tilgreinda séreign.

En af hverju er ég ósáttur við þessa svokölluðu tilgreindu séreign? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi þá ætla þessir snillingar að láta þessa tilgreindu séreign verða skerðingarhæfa frá greiðslum frá Tryggingarstofnun en það var m.a. upplýst á aukaaðalfundi lífeyrissjóðs Festu sem haldinn var fyrir nokkrum vikum. Já takið eftir að þessi tilgreinda séreign mun leiða til þess að sumt launafólk mun fá minni greiðslur frá Tryggingarstofnun þegar það hefur töku ellilífeyris frá TR.

Hvernig má það vera að þessum snillingum skuli detta til hugar að semja um aukið framlag í séreign sem leiðir til skerðingar á greiðslum frá TR og þá í ljósi þess að almannatryggingakerfið og lífeyriskerfið liggur undir verulegum ámælum vegna þeirra skerðinga sem nú þegar eru í kerfinu. Hvað er forysta ASÍ að pæla að auka á þessar skerðingar og fyrir hvern eru þessir menn að vinna? Þetta er svo óskiljanlegt vegna þess að sá séreignarsparnaður sem allir þekkja og eru að greiða í skerðir ekki greiðslur frá Tryggingarstofnun.

Í öðru lagi er óskiljanlegt að ætla að reyna að þvinga launafólk til að leggja þessa tilgreindu séreign einungis til lífeyrissjóðanna. Hví í ósköpunum vill forysta ASÍ ekki leyfa sínum félagsmönnum að hafa val um hjá hvaða séreignarsjóði þeir ávaxta sinn sparnað?

Í þriðja lagi þá skil ég ekki þá forræðishyggju að meina launafólki að nota þennan lífeyrissparnað til niðurgreiðslu á húsnæðisskuldum því betri ávöxtun er ekki hægt að fá enda þessi niðurgreiðsla skattlaus.

Í fjórða lagi þá skil ég ekki af hverju launafólk má ekki hefja töku á þessum séreignarsparnaði þegar 60 ára aldri er náð eins og með þann hefðbundna séreignarsparnað. Já ASÍ klíkan og forysta SA ætla sér að tryggja að allir þessir fjármunir renni til lífeyrissjóðanna og komið verði í veg fyrir launafólk hafi val og allt var þetta gert án þess að nokkur félagsleg eða lýðræðisleg umræða ætti sér stað inní stéttarfélögunum eða með hinum almenna launamanni.

Þetta var gert eins og áður sagði inn í reykfylltum bakherberjum ASÍ klíkunnar þar sem menn telja sig ekkert þurfa að spyrja eða leggja svona stórar ákvarðanir undir sína félagsmenn en þeir telja sig orðið ráða svo miklu að þeir þurfi ekki einu sinni að hlusta á alvarlegar athugasemdir Fjármálaeftirlitsins.

Ég vil segja við launafólk: við getum alls ekki látið þessi einræðis vinnubrögð ASÍ klíkunnar átölulaus stundinni lengur!

Fyrst birt á pressan.is

Comments

comments