Á Veggnum ríkir sú skoðun að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni, sérstaklega vegna hlutverks hans í sjúkraflutningum. Þetta er eitt af þeim málum sem ætti að vera rætt ítarlega í aðdraganda kosninga. Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðastjóri er einn þeirra sem standa að samtökunum Hjartað í Vatnsmýrinni. Hann tók saman kortið hér að neðan og skrifaði grein sem sýnir vel mikilvægi sjúkraflugs fyrir landsbyggðina. Greinin og kortið birtust á vef Vikudags á Akureyri og eru birt í heild sinni hér fyrir neðan.

——–

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar:

Á undanförnum árum hafa ótal greinar birst í dagblöðum, vefmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem staðhæft er að undirstaðan í sjúkraflutningum á Íslandi í lofti sé sinnt með þyrlum Landhelgisgæslunnar. En staðreyndin er ekki sú. Eftir að hafa lesið enn eina slíka grein fékk undirritaður þá hugmynd að afla gagna um hvernig staðið hefði verið að sjúkraflutningum í sjúkraflugi á síðasta ári.

mynd-najll

Til að auð­veldara sé að átta sig á raunverulegri stöðu mála eru niðurstöður hér sýndar með myndrænum hætti. Sýnt er með hvaða aðilum var flutt og hvaðan flutt var. Samkvæmt gögnum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Landhelgisgæslunni þá skiptust flutningarnir í fyrra með eftirfarandi hætti: Mýflug sinnti rúmlega 85% af sjúkraflutningunum með sínum flugvélum og Landhelgisgæslan tæpum 15% með sínum þyrlum. Á síðasta ári voru sjúkraflutningar um 755 talsins, þar af voru 645 með flugvélum Mýflugs en 110 einstaklingar voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar og þar af voru 25 sóttir á haf út.

Sjúkraflutningar í lofti frá Norð­austurkjördæmi voru 324 á síðasta ári með flugvélum Mýflugs og fjórir með þyrlum Landhelgisgæslunnar eða samtals 328. Þetta gerir að meðaltali tæplega einn sjúkraflutning á dag. Helmingurinn af sjúkraflutningunum með flugvélum Mýflugs er því af landsvæði sem afmarkast af Norðausturkjördæmi. Íbúafjöldi þess kjördæmis er rétt rúmlega 40 þúsund eða um 12-13% þjóðarinnar sem sýnir hvað við sem búum þar erum í raun háð sjúkrafluginu.

Í janúar sl. skrifuðu forsvarsmenn heilbrigðisstofnana á Norður- og Austurlandi grein sem birtist í Vikudegi undir heitinu Sjúkraflug og getur höfundur heilshugar tekið undir það sem þar kemur fram en í lokaorðum hennar segir:

,,Af framansögðu er ljóst að sjúkraflug er mikilvægur öryggisþáttur í heilbrigðisþjónustu landsbyggðar og þá sérstaklega íbúa á Norður- og Austurlandi. Í mörgum tilfellum getur sá tími sem fer í að flytja sjúklinga í viðeigandi meðferðarúrræði skipt sköpum. Íbúar á landsbyggðinni búa nú þegar við aðstæður sem eru í sumum tilfellum síðri en íbúar höfuðborgarsvæðisins hvað þetta varðar. Stjórnvaldsákvarðanir sem enn auka á þetta misræmi eru ekki ásættanlegar“.

Eftir dóm Hæstaréttar í síðustu viku í málefnum neyðarbrautarinnar þá hlýtur flestum að vera ljóst að nú þarf að koma til kasta löggjafarvaldsins, Alþingis. Alþingismenn boltinn er hjá ykkur. Það er kominn tími á sóknarbolta, sýnið dug og þor og komið boltanum í netið.

Comments

comments