Sigurður Már Jónsson

Sigurður Már Jónsson

Þessi grein eftir Sigurð Má Jónsson birtist 19. nóvember 2015 á mbl.is

Það var áhugvert að koma á Nordica hótel og fá að vera viðstaddur Sjávarútvegsráðstefnuna 2015 sem haldin var þar í dag. Ráðstefnan hefur sótt í sig veðrið og nú voru alls um 800 gestir skráðir til leiks, 300 fleiri en í fyrra. Á ráðstefnunni var upplýst að útlit er fyrir að útflutningsverðmæti íslensks sjávarútvegs aukist um 40 milljarða á þessu ári eins og rakið var ágætlega í RÚV í kvöld en meðfylgjandi graf er fengið þar að láni. Útlit er fyrir að útflutningsverðmæti greinarinnar aukist um 40 milljarða á þessu ári, að því er fram kom í máli Kristjáns Hjaltasonar, eins af stofnendum ráðstefnunnar. Þau námu 253 milljörðum árið 2014 en áætlað er að þau verði um 290 milljarðar í ár og 292 milljarðar á næsta ári. Augljóst er að mikil verðmæti eru dregin að landi og greinilegt að mikil bjartsýni ríkir í sjávarútvegi landsmanna sem snýst nú fyrst og fremst um markaðs- og sölustarf og nýsköpun.afurðir

Um allan heim eru fiskveiðar reknar með stórkostlegu tapi og víðast með ríflegum ríkisstyrkjum. Fiskveiðifloti margra ríkja er miklu stærri en aflinn, sem hann er fær um að landa, og er því víða stunduð rányrkja, veiðar umfram endurnýjunarmátt fiskistofna. Á þessu eru fáar undantekningar. Ísland er skýrasta dæmið um að hægt er að gera hlutina á annan hátt. Það stafar af skynsamlegri stjórn og skynsamlegum rekstri, og svo því að við höfum sem þjóð ekki efni á því að reka sjávarútveginn öðruvísi, hann verður að standa undir sér. Og það gerir hann skammlaust. Sjávarútvegurinn átti stóran þátt í að fleyta okkur yfir erfiðleika áranna eftir bankahrun, og hagsæld okkar veltur á því að hann haldi áfram að vera arðbær. En þetta hefur ekki alltaf verið svona.

Mikil afli – léleg afkoma

Það er vert að rifja upp að sjávarútvegurinn stóð illa í upphafi níunda áratugar síðustu aldar, þó bestu aflaár Íslandssögunnar væru þá að baki eins og forsætisráðherra rifjaði upp í ræðu sinni á ráðstefnunni. Árið 1985 var mesta aflaár í fiskveiðisögu Íslendinga og árið á undan það þriðja mesta. Þrátt fyrir það bjuggu fiskvinnsla og útgerð við slæma afkomu. Um leið kom í ljós að ástand fiskistofna var enn verra en áður hafði verið talið. Með óbreyttri sókn var ljóst að ástand þeirra færi versnandi. Á sama tíma var augljóst að ofveiðin skilaði litlu til reksturs sjávarútvegsfyrirtækja, meðal annars vegna ómarkvissrar meðhöndlunar aflans og slaks árangurs í gæða- og sölumálum.

Íslendingar einfaldlega gengu á sína helstu auðlind, voru að éta útsæðið. Undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar sem sjávarútvegsráðherra var gripið til margvíslegra aðgerða: Kvótakerfinu var komið á, viðamikil skuldbreyting í sjávarútveginum átti sér stað, lán voru lengd og vextir lækkaðir og söluskattur var endurgreiddur til sjávarútvegsins. Það kostaði mikil átök að takmarka veiðarnar á þessum tíma en um leið þurfti að tryggja að aflasamdrættinum væri skipt jafnt á byggðalög og skip.

Áhersla á gæði og verðmætaaukningu

En mikilvægasta skrefið var að hvetja sjómenn og allt starfsfólk í sjávarútvegi til að auka gæði og um leið verðmæti þess afla, sem veiða mátti hverju sinni. Íslenskur sjávarútvegur fór að snúast um gæði fremur en magn.

Ísland nýtur því í dag mikillar sérstöðu þegar kemur að sjávarútvegi. Hvergi er sjávarútvegur svo gjöful atvinnugrein fyrir þjóðarbúið eins og hér. Hvergi er áherslan á sjálfbærni og vernd fiskistofna til að nýta megi þá skynsamlega til framtíðar jafn mikilvæg og hér. Og hvergi hefur tekist eins vel að hámarka þau verðmæti sem aðgangur að gjöfulum fiskimiðum skapar. Við þær ástæður, þessa mikla árangurs sem nefndur hefur verið hér að framan, bætist geta fiskiðnaðarins að laga sig að kröfum markaðarins og það öfluga markaðsstarf sem íslenskur sjávarútvegur stundar.  Það starf byggir á gæðum þar sem varan, vinnslan og afhendingaröryggi eru grundvallaratriði. Að afhenda vöruna í samræmi við síbreytilegar þarfir neytenda er það sem öðru fremur skapar verðmæti í íslenskum sjávarútvegi í dag.

Við Íslendingar rekum sölu- og markaðsdrifin matvælaiðnað með fisk, miklu frekar en að ástæða sé til að tala um um sóknardrifna útgerð eins og var hér á landi fyrir daga kvótakerfisins. Íslendingar hafa verið fljótir að tileinka sér nýjungar í sölu- og markaðsstarfi og það hjálpað okkur að ná þeim árangri sem við höfum náð við sölu á fiski um allan heim. Íslenskir fiskútflytjendur hafa sýnt að þeir eiga auðvelt með að aðlaga sig nýjungum og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið dugleg að fjárfesta í tækjum og tólum sem hjálpa okkur að skara fram úr, hvort sem það er í veiðum, vinnslu eða gæðamálum.

Ekki má gleyma menntun og þjálfun sjómanna og fiskvinnslufólks, sem skiptir miklu máli. Um allan heim er litið til til árangurs Íslendinga þegar kemur að gæðum og menn vita að það þýðir ekki að koma hingað til Íslands í leit að ódýrasta fiskinum.

Við erum því augljóslega fremstir meðal jafningja þegar kemur að vöruvöndun og á hinum alþjóðlegu fiskmörkuðum keppa Íslendingar miklu fremur í gæðum en verði. Gæði aðgreina okkur frá öðrum fiskveiðiþjóðum. Við vitum að úr þriðja flokks hráefni er ekki hægt að vinna verðmætar afurðir.

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa verið fyrirferðamiklar að undanförnu en í könnun sem Seðlabankinn gerði kemur fram að félög í sjávarútvegi ætla auka fjárfestingar sín mest á árinu miðað við aðrar atvinnugreinar eða um 50%. Vert er að hafa í huga að hér eru ekki meðtaldar fjárfestingar í skipum. Mörg félög hafa nú þegar fjárfest í skipum sem eru á leið til landsins eða eru nú þegar komin. Þetta er vitaskuld mikið fagnaðarefni.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.

Comments

comments