Þjóðin getur þakkað Steingrími J. Sigfússyni og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það sem Vigdís Hauksdóttir kallar „Eikavæðingu bankana hina síðari“ en eins og kom fram hér á Veggnum var það undir stjórn þessa fólks sem erlendum kröfuhöfum voru afhentir bæði Arion- og Íslandsbankar. Það sem gerir þetta mál svo skrítið og skakkt er að með umræddu samkomulagi við kröfuhafana á árinu 2009, samkomulagi sem var um fjármögnun og eignarhald þessara banka, var bönkunum falið að endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf og samfélag. Til urðu dauðalistar þar sem í tilfelli Arionbanka og Íslandsbanka voru byggðir á hagsmunum erlendra kröfuhafa og þeirra sem fyrir þá störfuðu. Þessir hagsmunir voru teknir fram fyrir hagsmuni þjóðarinnar.

Einn bankanna, Landsbankinn, hefur allt frá árinu 2009 verið að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Ríkið hefur því borið ábyrgð á framferði hans við að losa um þær gríðarlegu eignir sem hann fékk í vöggugjöf við bankahrunið. Sama á hér við um framferði hans gagnvart fjölmörgum heimilum sem lentu útaf sporinu eftir hrun.

Mikið hefur verið ritað um söluna á Borgun en nú liggur fyrir niðurstaða Ríkisendurskoðunar sem farið hefur ofan í sölu eigna Landsbankans eftir hrun.  Í skýrslu Ríkisendurskoðunar  eru gerðar fjölmargar athugasemdir við sölu Landsbankans á mörgum eignum á umræddu tímabili. Einkum er kastljósinu beint að söluferli sex eigna. Sölurnar hafi farið fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum hefur fengist mun lægra verð fyrir eignarhlutina en gera mátti ráð fyrir.

Eign­ar­hlutum sem Lands­bank­inn hafði tekið yfir eftir hrun var komið fyrir inni í eign­ar­um­sýslu­fé­lag­inu Vestia, sem bank­inn átti að öllu leyti. Í ágúst 2010 var skyndi­lega til­kynnt um að Fram­taks­sjóður Íslands, umbreyt­inga­sjóður í eigu íslensku líf­eyr­is­sjóð­anna, hefði keypt Vestia.  Við þennan gjörning eignaðist Lands­bank­inn 27,5% hlut í Framtakssjóði.  Þannig var íslenska rík­ið, sem aðaleigandi Lands­bank­ans, orð­inn óbeint stærsti ein­staki eig­andi Fram­taks­sjóðs­ins.

Borgunarmálið var bara toppurinn á þessum ísjaka. Í öllum þessum gjörningum sem fram fóru í lokuðu ferli var verið að færa völdum aðilum eignir bankans á undirverði. Gott er að taka dæmi af Icelandic Group. En félagið var inni í Vestia þegar félagið var selt til Framtakssjóði Íslands. Fyrir Icelandic Group fékkst um 55% af bókfærðu eigin fé þess í lok júní 2010. Á þessum tíma átti það félag alls 31 dótturfélag.

Ári síðar seldi Framtakssjóður Íslands 12 þessara dótturfélaga fyrir sama verð og hann hafði keypt alla Icelandic Group samstæðuna á. Það vekur líka sérstaklega athygli að meðan Icelandic Group var enn í eigu Landsbankans, áður en Framtakssjóður Íslands festi kaup á Vestia.  Óskaði það félag sem keypti 10 þessara 12 dótturfélaga eftir viðræðum við bankann um kaup á eignarhlutum hans en fékk synjun frá bankanum, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ríkisendurskoðun telur að salan á Vestia og Icelandic Group í lokuðu ferli hefði orðið til þess að skaða orðspor bankans. Ríkisendurskoðun telur að bankinn hafi skaðað orðspor sitt verulega með þessum gjörningum og beinir því til bankaráðs Landsbankans að gripið verði til ráðstafana til að endurreisa orðspor bankans.  Orðrétt segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

„Ríkisendurskoðun hvetur bankaráð Landsbankans til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að endurheimta og efla það traust og þann trúverðugleika sem bankinn hefur á undanförnum árum stefnt í hættu með verklagi sínu við sölu á verðmætum eignum. Stofnunin telur sérstaklega mikilvægt að bankaráðið tryggi að bankinn fylgi eigandastefnu ríkisins og öðrum reglum sem eiga að stuðla að góðum stjórnarháttum og heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði.“

Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum sem send var í kjölfar birtingar skýrslu Ríkisendurskoðunar var haft eftir Helgu Björk Eiríksdóttur, formanns bankaráðs Landsbankans, að það sé markmið bankans að læra af reynslunni og gera ávallt betur. Orðrétt segir:

„Í því ljósi munum við kynna okkur efni endanlegrar skýrslu ítarlega og meta hvort frekari aðgerða er þörf.“

Það er áleitin spurning hvort bankastjóra Landsbankans, ásamt nánustu samstarfsmönnum hans sé sætt lengur. Einbeittur brotavilji blasir hér við. Þetta framferði samrýmist ekki því siðferði í viðskiptum sem þarf að ríkja til þess að sátt náist í þjóðfélaginu. Tilraunir formanns bankaráðs Landsbankans til þess að þagga málið niður grafa einnig undan bankaráðinu. Svo má ekki gleyma þætti lífeyrissjóða landsins. Þeir eru eigendur Framtakssjóðs Íslands og voru hinn aðilinn í þessum samningum. Aðilinn sem fékk eignir þjóðarinnar á silfurfati. Hver ætlar að bera ábyrgð þar?

Comments

comments