Mótmæli við Austurvöll hafa verið daglegt brauð upp á síðkastið. Nú ber svo við að  fyrirhuguð eru mótmæli við heimili fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar. Margir hafa stigið fram og gagnrýnt þær fyrirætlanir en ekki er annað að sjá en mótmælendur muni halda sínu striki og mæta fyrir utan heimili ráðherrans.

Mótmæli af þessi tagi geta tæplega flokkast sem friðsamleg og heiftin minnir á margt um nornaveiðarnar á miðöldum. Það örlar á sömu heift hjá sumum þeim sem eru andvígir framboði Ólafs Ragnars Grímssonar til forseta. Sú var tíðin að virðing var borin fyrir forseta vorum og jafnvel voru ráðamenn þjóðarinnar hafðir með í bænum landsmanna. Sá tími virðist vera liðinn og við hefur tekið tími heiftar, gremju og haturs.

Stjórnarandstaðan heimtar kosningar strax, jafnvel þótt umboð ríkisstjórnarinnar sé til ársins 2017 og að þingmeirihluti hennar sé góður. Þrátt fyrir þetta er vart starfsfriður á Alþingi.  Óhamin heiftin þar á bær virðist vera af sama toga og hjá þeim mótmælendum sem ætla að sækja fjármálaráðherrann heim vopnaðir pottum og pönnum.

Lýðræðislegar hefðir og venjur eru virtar að vettugi  og virðingarleysið virðist algjört. Það er a.m.k. ekki að sjá kristileg gildi hafi verið í hávegum höfð í þeirri aðför að lýðræðinu sem þjóðin hefur horft upp á undanfarnar vikur. Spurningin er hvort um sé að ræða skrílræði.

Comments

comments