Vilhjálmur Birgisson skrifaði áleitinn pistil á blog sitt á Pressunni. Þar upplýsir hann að Ísland eitt landa Evrópu mælir verðbólgu með húsnæðisliðum.  Með þessari aðferðafræði hefur íslenska fjármálakerfið haft af almennum neytendum hundruðir milljarða á árunum eftir hrun. Ekki einungis þetta því Vilhjálmur bendir einnig á að þetta hefur haft veruleg áhrif til hækkunar stýrivaxta.

Nú er rétt að spurt sé.

  1. Er þetta rétt hjá Vilhjálmi?
  2. Hvað skýrir að þetta fyrirkomulag sé haft með þessum hætti hér?
  3. Hver ber á þessu ábyrgð?
  4. Hvað ætla þeir stjórnmálaflokkar sem hyggjast bjóða sig fram til þings eftir rétt um mánuð að gera í þessu?

    Svör óskast send á ritstjórn Veggsins sem hefur fullan hug á því að fylgja þessu máli eftir.

Hér fyrir neðan má lesa blogfærslu Vilhjálms í heilu lagi. Hlekk á blogfærsluna á pressunni má finna hér.

———

„Vissir þú þetta?

·         Að verðbólga er mæld án húsnæðisliðar í öllum löndum í Evrópu?

·         Að í Evrópulöndum er húsnæðisliðurinn ekki inni, því þar er litið á húsnæði sem fjárfestingu en ekki sem neyslu?

·         Að ef verðbólgan væri mæld án húsnæðisliðar eins og í Evrópu þá hefðu verðtryggðar skuldir heimilanna lækkað um 18 milljarða á síðastliðnum 12 mánuðum en ekki hækkað um 18 milljarða eins og raunin varð? Hér hafa 36 milljarðar verið hafðir af almenningi á síðustu 12 mánuðum!

·         Að frá 1. janúar 2013 til dagsins í dag hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um 100 milljörðum meira vegna þess að við mælum ekki verðbólguna á sama hátt og önnur Evrópulönd?

·         Að frá 2003 til 2007 var meðaltalsverðbólga 4,4%, en ef við hefðum mælt hana eins og önnur Evrópulönd án húsnæðisliðar hefði hún verið 2,4%?

·         Að ef við myndum mæla verðbólguna eins og önnur Evrópuríki þá væru stýrivextir á Íslandi miklu lægri og þar af leiðandi vextir til almennings?

·         Að búið er að hafa af almenningi og fyrirtækjum fleiri hundruð milljarða vegna þess að Ísland er eitt landa innan Evrópu sem hefur húsnæðisliðinn inní neysluvísitölunni?

 

Að þessu sögðu þá er það með ólíkindum að stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Seðlabankinn, sem tala um mikilvægi þess að ná hér stöðugleika, ná vöxtum niður og að hér þurfi að ríkja hóflegri verðbólga til langframa, skuli ekki sjá til þess að neysluvísitalan sé mæld með sambærilegum hætti og gert er í öllum löndum Evrópu, það er að segja án húsnæðisliðar.

Bara við það eitt að mæla verðbólguna með sama hætti og gert er í öllum öðrum Evrópulöndum, sem sagt án húsnæðisliðar, mun hún lækka gríðarlega til langframa sem mun í kjölfarið leiða til lækkunar á vöxtum til almennings og fyrirtækja. Það má líka benda á það að ef við hefðum mælt neysluvísitöluna eins og aðrar Evrópuþjóðir þá hefði stýrivaxtaþróun fyrir hrun orðið allt önnur. Það hefði síðan haft áhrif á gengi krónunnar, viðskiptajöfnuð, vaxtamunaviðskipti, útrásina og svo óteljandi margt annað.

Ég vil fá svar frá ráðamönnum, af hverju er þetta séríslenskt fyrirbæri að hafa húsnæðisliðinn inní mælingu á neysluvísitölunni? Sérstaklega í ljósi þess að allar skuldir almennings eru nátengdar við hækkun neysluvísitölunnar í gegnum verðtrygginguna.

Ég vil líka fá svar frá stjórnmálamönnum við því hvernig í ósköpunum við getum verið að bera okkur saman við önnur lönd þegar við mælum neysluvísitöluna með allt öðrum hætti en aðrar þjóðir. Í ljósi þess að það er húsnæðisliðurinn sem hefur í gegnum árin knúið verðbólguna áfram!

Svo tala þessir aðilar um að við verðum að ná tökum á stöðugleikanum og verðbólgunni, en væri hægt að gera strax á morgun með því að láta mæla neysluvísitöluna með sama hætti og gert er í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við. Hingað til hafa menn verið að bera saman epli og melónu með skelfilegum afleiðingum fyrir heimili og fyrirtæki þessa lands!“

Comments

comments