Ásdís Thoroddsen kvikmyndaleikstjóri

Ásdís Thoroddsen kvikmyndaleikstjóri

„Á Flateyri við Önundarfjörð hefur byggst upp þorp í kringum útgerð og fiskverkun. En nú hallar undan fæti. Lögin um stjórn fiskveiða hafa reynst þorpinu afdrifarík. Fyrir utan eru gjöful fiskimið, en ekki er sjálfsagt að róið sé til fiskjar.“ Á fimmtudaginn verður frumsýnd í Bíó Paradís í Reykjavík heimildamyndin Veðrabrigði eftir Ásdísi Thoroddsen leikstjóra. Myndin fjallar um lífið á Flateyri þar sem íbúarnir heyja harða baráttu fyrir tilveru sinni og framtíð þorpsins. Kvótakerfið í fiskveiðum færir örlög fólksins í hendur þeirra sem ráða kvótanum.
Bíómyndin Veðrabrigði verður  sýnd í Bíó Paradís frá 26. nóvember til 2. desember. Myndin er 80 mínútur að lengd. RUV og pólska sjónvarpsstöðin TVP hafa þegar tryggt sér sýningarrétt á henni.

Um myndina:
,,Mikill hluti þorpsbúa er pólskt verkafólk sem hefur sótt þangað í atvinnuskyni, en á hinn bóginn flytja ungir Íslendingar burt í leit að menntun og einhverju öðru við að vera en fiskvinnu. Fylgst er með nokkrum þorpsbúum við störf sín og rætt við þá um lífskilyrði þeirra og þorpsins. Ber fyrst að telja hina öldnu Jóhönnu sem segir nýliðna sögu þorpsins. Önundur vörubílstjóri heitir eftir firðinum þar sem hjarta hans slær, en hann fær ekki þrifist. Samhent fjölskylda Guðrúnar, eiginmanns hennar og barna, gerir út og herðir gæðaharðfisk. Einyrkinn Sigurður fiskar með syni sínum á unglingsaldri upp í leigukvóta. Janina var nýflutt til landsins, vann í frystihúsinu og var nýbúin að kaupa hús, þegar henni var sagt upp í þrengingum þorpsins. Stanislaw flæktist til Íslands úr atvinnuleysi Póllands og endaði á Flateyri sem sjómaður. Á endanum hittum við Bryndísi, nýkomna til þorpsins full eldmóðs sem framkvæmdastjóri nýs fyrirtækis.“

Comments

comments