Viðar Garðarsson skrifar:
Kári Stefánsson forstjóri  Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar

Kári Stefánsson
forstjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur flogið hátt síðustu daga með undirskriftasöfnun sína. Vissulega er það þannig að þjóðin getur öll tekið undir það sjónarmið að við eigum að hugsa vel um þá sem eru veikir og þurfa á aðstoð samfélagsins að halda. Við eigum að veita þá bestu mögulegu aðstoð sem við getum hverju sinni. Ég er viss um að Kári fer með rétt mál þegar hann lýsir fyrir okkur hinum því sem hann kallar sjálfur útópískar hugsanir sínar.  En heilbrigðismálin eru ekki það eina sem útópísk hugsun mín væri til í að setja meiri peninga í.

Okkur gengur illa að byggja upp gott samgöngukerfi. Þar er viðhaldi verulega ábótavant, um víðan völl eru hólar og hæðir að ég tali nú ekki um holurnar í slitlaginu eða  dauðagildrurnar sem leynast hér og þar og eru þekktar, en fjármuni hefur vantað til að lagfæra.

Það er sannarlega skammarlegt fyrir okkur sem þjóð að hér skuli aldraðir og öryrkjar lifa við hungurmörk og fái að borða þegar hentar að skutla til þeirra mis kræsilegum mat. Mín útópíska hugsun gengur út á það að eldriborgarar og öryrkjar geti lifað sómasamlegu lífi af því sem samfélagið leggur þeim til.

Staðreyndir og samanburður sýna líka að skólakerfið okkar, sérstaklega háskólakerfið er undirfjármagnað. Hin skólastigin eru í lítið skárri stöðu. En hversvegna erum við, þjóð sem telst á flest alla samanburðarmælikvarða efnuð í þessari stöðu?

Við erum illa skuldsett og greiðum gríðarlega háar upphæðir í vaxtagjöld. Of stór hluti þjóðarinnar starfar hjá eða er á framfæri hins opinbera. Ef við leggjum saman starfsmenn hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga), börn á skólaaldri, aldraða, öryrkja og fólk sem hefur misst atvinnu kemur í ljós að þessi hópur er nálægt því að telja 2/3 hluta þjóðarinnar. Það eru of fáir einstaklingar úti í atvinnulífinu að vinna verðmætaskapandi störf. Við þurfum því að efla atvinnulífið með því að létta á því álögum. Þannig mun hlutur þess í þjóðarkökunni stækka. Velsæld aukast.

Eina leiðin sem tryggir viðsnúning til lengri tíma er sterkt, fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf sem ekki er skattpínt heldur hvatt til uppbyggingar og vaxtar. Í gegnum þessháttar vöxt mun þjóðin ná vopnum sínum á ný.

Niðurstað mín er því þessi: Þó ég sé í hjarta mínu algerlega sammála útópíu Kára og ég vildi mjög gjarnan að við Íslendingar ættum besta og öflugasta heilbrigðiskerfi í heimi. Þá geri ég mér grein fyrir því að í samfélaginu eru önnur stór mál sem þarfnast úrlausnar. Því verður að stækka efnahag þjóðarinnar með öflugu atvinnulífi sem stendur undir þeirri velferð sem útópískar hugsjónir okkar kalla á. Það er eina raunhæfa leiðin.

VG

Comments

comments