Viðskiptablaðið sendir frá sér leiðara í dag sem ber yfirskriftina „Óréttlát leiðrétting“. Þar sem áður heldur Viðskiptablaðið því fram að Leiðréttingin hafi verið hið mesta glapræði. Þar segir meðal annars:

„Þessi gagnrýni stendur enn, þótt aðrir þættir hafi haft dempandi áhrif á verðbólguþróun. Eftirgjöf skulda með þessum hætti er vont fordæmi og á það sama við um 110% leiðina svokölluðu eða skuldaeftirgjöf Hæstaréttar í gengislánadómunum. Þegar gefinn er afsláttur af því að fólk greiði til baka skuldir sem það hefur stofnað til er hætt við að það skapi óæskilega hvata til framtíðar.“

Einn af þeim sem mótmælir þessum málflutningi er Marínó G. Njálsson sem ritar á Facebook vegg sinn:

„Ég veit ekki við hvað höfundur meðfylgjandi greinar starfar, en mér leið eins og ég væri að lesa um „alternative facts“, þegar ég las greinina. Í henni eru ótrúlegar vitleysur og sú sem slær allt út er í eftirfarandi texta:

„Eftirgjöf skulda með þessum hætti er vont fordæmi og á það sama við um 110% leiðina svokölluðu eða skuldaeftirgjöf Hæstaréttar í gengislánadómunum.“

Þetta með „skuldaeftirgjöf Hæstaréttar í gengislánadómunum“ er alveg nýtt fyrir mér. Nánast eins og komið úr munni fjölmiðlafullrúa Donald Trump. Hæstirétti veitti enga skuldaeftirgjöf. Hann úrskurðaði að afurðin sem um var að ræða, þ.e. gengistryggð lán, ætti sér ekki heimild í íslenskum lögum og því hafi tenging lánsfjárhæðar við dagsgengi gjaldmiðla verið ólögleg. 

Fyrri hlutinn er líka klikkað, þegar haft er í huga, að skuldaeftirgjöf er jafn órofa hluti af bankastarfsemi og útlánin. Fjármálafyrirtæki hafa veitt skuldaeftirgjöf frá ómunatíð. T.d. væri líklegast enginn fjölmiðill starfandi á Íslandi, ef engin væri skuldaeftirgjöfin.

Kaldhæðnin í þessu er síðan, að það voru hrunbankarnir sem gáfu skuldirnar eftir, sbr. skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, en nýju kennitölurnar voru að haga sér eins og verstu veðlánabúllur með því að kaupa ódýrt og selja dýrt. Og það eru sömu hrunbankar og hafa náð nauðasamningum við kröfuhafa sína, en svona til að upplýsa það fyrir þá sem ekki vita, þá fela nauðasamningar í sér skuldaeftirgjöf.

Ég vona að menn láti vera að koma með svona „raunverulíki“, eins og stungið hefur verið upp á að „alternative facts“ verði þýtt.“

Veggurinn tekur undir skoðanir Marínós

Comments

comments