Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Fyrirhugað Framfarafélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fer nokkuð í taugarnar á forystu Framsóknarflokksins. Þannig er haft eftir formanni Framsóknarflokksins Sigurði Inga Jóhannssyni í frétt á Visir.is að Sigmundur Davíð ekkert hafa rætt við hann um stofnun Framfarafélags. Sigurður segist þó hafa frétt af því að Sigmundur ynni að stofnun félags.

Veggurinn hefur fyrir því áreyðanlegar heimildir að ýmsir þeir sem teljast til flokkeigendafélagsins sé nokkuð óróir vegna þessara frétta og leiti nú leiða til þess að kasta rýrð á þetta framtak Sigmundar. Ljóst er hinsvegar að persónufylgi Sigmundar er sterkt í grasrót Framsóknar og nær raunar langt út fyrir raðir flokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ritar á Facebook síðu Framfarafélagsins smá grein þar sem hann skýrir tilgang félagsins. Þar segir:

„Tækifærin verða ekki nýtt til fulls og vandamálin ekki leyst eins vel og kostur er með einsleitum stjórnmálaáherslum, kerfisræði, pólitískum rétttrúnaði og kennisetningum eða innihaldslausum frösum.
Framfarafélagið er stofnað í því skyni að leita bestu leiðanna til að bæta samfélagið og líf allra Íslendinga. Það ætlum við að gera með því að skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna.“

Áfram ritar Sigmundur:

„Félagið er ekki flokkspólitískt og er opið fyrir góðum hugmyndum og lausnum sama hvaðan þær koma. Það aðhyllist hvorki sósíalisma né frjálshyggju en telur þó að ólík hugmyndafræði hafi að geyma gagnlegar hugmyndir og innsæi sem nýst geta í leitinni að bestu niðurstöðunni hverju sinni.“

Hér kveður nokkuð við nýjan tón, vettvangur settur saman til þess að leita betri lausna fyrir alla Íslendinga án þess að skorða skoðanir við eina stefnu eða einn flokk. Á boðuðum fundi Framfarafélagsins á morgun er Eyþór Arnalds frumkvöðull, tónlistar- og sjálfstæðismaður með erindi. Það að fá einstakling sem hugsar útfyrir boxið þrátt fyrir að hann sé ekki framsóknarmaður setur félagið strax í áhugaverða vídd. Gefur nýjan og spennandi tón.

Eftir situr flokkeigendafélag Framsóknarflokksins með tvo valkosti hvorugan góðan að þeirra mati.  Þeir geta látið eins og ekkert sé og barist kröftuglega gegn því að Sigmundur nái fyrri stöðu í flokknum. Það mun að líkindum enda þannig að flokkurinn klofnar og grasrótin mun fylgja Sigmundi ákveði hann að fara fram undir merkjum annars stjórnmálaafls. Eftir situr þá stórskaðaður flokkur sem ekkert á eftir nema arfleið framsóknarmannanna eins og Finns Ingólfssonar, Hrólfs Ölvissonar og Ólafs Ólafssonar. Þeirra sem mokuðu undir sig!

Hinn kosturinn er að hefja Sigmund til vegs og virðingar innan flokksins á ný og virkja þá miklu orku og þann sköpunarkraft sem einkennir Sigmund og þá sem vinna með honum. Hefja á ný uppreyst Framsóknarflokksins með nýjar hugmyndir og háleitt markmið um að gera Ísland betra fyrir alla.

Víst er að þeim sem stóðu að því að fella Sigmund Davíð á síðasta flokksþingi hugnast ekki vel þessir kostir sem blasa við.

Comments

comments