AfstöðumyndSSB Orka hyggst reisa virkjun í Svartá í Bárðardal. Áætlað er að stífla Svartá í Bárðardal um 0,4 km ofan við ármót Grjótár sem fellur í hana að austanverðu. Inntaksvirki eru ráðgerð sem steyptur þröskuldur um 26 m langur þvert á árfarveginn. Aðrennslispípa virkjunarinnar er ráðgerð úr trefjaplasti um 2,9 m í þvermál og u.þ.b. 3100 m löng. Pípuleiðin er valin meðfram Svartá á hægri bakka árinnar og verður hún öll niðurgrafin og fyllt að henni. Á yfirborði verður endurfyllt með gróðurmold enda liggur pípuleiðin að mestu um gróið land. Til þess að jafna þrýstingssveiflur í aðrennslispípunni við breytilegt álag stöðvarinnar er gert ráð fyrir að steypa hringlaga þró skammt ofan við stöðvarhússtæðið á bakka Svartár. Stöðvarhúsinu verður að öllum líkindum valinn staður skammt frá bakka Svartár um 0,7 km frá vegi þar sem hann sveigir frá ánni upp til móts við bæinn Bjarnastaði. Uppsett afl virkjunarinnar verður 9,8 MW. Leggja á um 47 km langan 33 kV jarðstreng ásamt ljósleiðara frá virkjun að tengivirki Landsnets við Laxá (Laxárvirkjun).

Comments

comments