Marínó G. Njálsson skrifar á vegg sinn á Facebook í tilefni þess að Hagstofan var að gefa út verðbólguútreikninga sína.

„Verðbólga með húsnæðisliðnum er óbreytt á milli mánaða, þ.e. helst í 1,9%. Án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun upp á 0,9%. Hvor talan sem tekin er, sýnir hve vextir Seðlabanka Íslands eru gjörsamlega út úr kortinu.

Breytingar á vísitölu neysluverðs með húsnæðisliðnum reynast neikvæðar um 0,57% á milli mælinga í desember og janúar. Vísitala neysluverðs stendur í 436,5 stigum, en til upplýsingar var hún í 436,3 stigum í júní, þannig að síðustu 7 mánuði hefur nánast engin verðbólga verið. Í janúar í fyrra stóð vísitalan hins vegar í 428,3 stigum.

Án húsnæðisliðarins lítur þetta talsvert öðruvísi út. Fyrir ári stóð sú vísitala í 391,6 stigum, en núna í 388,0 stigum eða lækkun upp á 0,9%. Mismunurinn á 0,9% lækkun án húsnæðisliðarins og 1,9% hækkun með honum inni er hægt að skrifa á um 15% hækkun húsnæðisliðarins „reiknuð húsaleiga“, en það er útreikningur Hagstofunar á hækkun markaðsverðs húsnæðis.

Svo má nefna, að 18 mánaða gömul spá mín gerði ráð fyrir 0,7% lækkun vísitölunnar í janúar og gerir ráð fyrir 0,5% hækkun í febrúar og 0,35% hækkun í mars. Ætla ég að halda mér við spár næstu tveggja mánaða, þó þær séu helst til bjartsýnar miðað við hreyfingar á krónunni þessar vikurnar.“

Comments

comments