Okkur er sagt að ef við notum almenningssamgöngur þá gerum við umhverfinu í borginni gott. Reynt er að telja okkur trú um að meginreglan eigi að vera súa að nota almenningssamgöngur ef mögulegt er. Það er gott fyrir umhverfið og gott fyrir borgina. Þeir sem annast og bera ábyrgð á borgarskipulagi og einnig þeir sem framleiða hópferðabifreiðar reyna að höfða til okkar með ýmsu móti eins og til að mynda með ljósmyndinni hér að ofan. Hún er frá Pólskum framleiðanda af hópferðavögnum sem heitir Solaris Bus & Coach SA:

Ljósmyndin birtist á Facebook síðu fyrirtækisins og undir henni stendur með hjálp Google Translate. „Svona margir bílar hverfa af götum borgarinnar þegar eigendur þeirra fylla einn vagn. Þessi fjöldi bíla væri óþarfur ef eigendur þeirra notuðu frekar almenningssamgöngur.“

Á myndinni er svo mynd af miklum fjölda einkabíla og vagni sem heitir Solaris Urbino 18 en samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda ber svona vagn 161 farþega.

Sannleikurinn er þessi. 

Ef þessi vagn tekur 161 farþega þá fá 51 af þeim sæti og hinir þurfa að standa þétt. Svo þétt að hvorki fólk með barnavagn, reiðhjól eða bundið við hjólastól gæti komist inn í vagninn.

Vissulega er það rétt að fljótt á litið er vagninn skilvirkari en bifreiðarnar vinstramegin á myndinni. Þetta er allavega sú mynd sem reynt er að draga upp meðal annars í tengslum við fyrirhugaða Borgarlínu.

Það er alveg ljóst að dvölin í vagninum verður ekki til þæginda fyrir farþegana og sannarlega ekki öruggari ef vagninn skyldi nú lenda í óhappi eins og hörðum árekstri við annað farartæki. Það eru engin öryggisbelti, engir loftpúðar (nema fyrir ökumanninn). Vagninn stoppar reglulega til þess að hleypa fólki út og taka fleiri inn og líklegt er að ef þú ert nálægt hurð að þú þurfir að fara út til þess að hleypa farþegum innar í vagninum út og stökkva síðan inn á ný.  Nú svo skilar vagninn þér ekki á endanlegan áfangastað.

Nýtingarhlutfall

Samkvæmt skýrslu sem University of Michigan Center for Sustainable Systems gáfu út er áætluð meðal nýting á einkabílnum 1,55 farþegi í hverri ferð eða 31% nýting að meðaltali sé miðað við 5 manna bifreiðar. Staðreyndin er að til og frá vinnu er farþegafjöldin nær því að vera ein persóna í ferð en þegar tilgangurinn er að leita afþreyingar þá er talan nær tveimur. Meðaltal í hverri ferð á einkabílnum er af þessum sökum reiknað 1,55.  Í Bretlandi er meðal farþegafjöldin í almenningsvögnum 11,1 farþegi í hverri ferð sem er einungis 15,9% af flutningsgetu meðalvagnsins. (áætlað 40 sæti og 30 standandi).

Sé þetta sett í samhengi þarf aðeins 3 bifreiðar til þess að flytja meðalfjölda þeirra sem í vagnana fara. Þessu til viðbótar flytur bifreiðin þig á öruggari hátt beint á áfangastað.

Eldsneytisnýting nýrra bíla er sífellt að batna. Nú lætur nærri að nýir bílar komist að meðaltali 14,28 kílómetra á hvern líter af eldsneyti eða eyði um 7 lítrum á hundraðið eins og við köllum það yfirleitt. Til samanburðar hefur National Renewal Energy Laboratory í Ameríku áætlað að meðal almenningsvagninn í Bandaríkjunum komist um 1,69 kílómetra á hverjum lítra eða eyðsla sem nemur 59 lítrum á hundraðið.

Við getum því sagt að miðað við meðal fjöldann 11 farþega og þessa eyðslu þá þá sé með almenningssamgöngum hægt að ná 18,59 farþegakílómetrum (11×1,69) út úr hverjum lítra eldsneytis. Til samanburðar þá eru 22,14 (14,28×1,55) farþegakílómetrar á bak við hvern lítra eldsneytis á einkabílnum.

Ályktanir

Byggt á þessum einföldu útreikningum sem eru byggðir á meðaltölum úr ýmsum áttum þá er síst óhagstæðara út frá útblæstri og eldsneytiseyðslu að nota einkabílinn. Ef að jafnaði væru tveir í bíl væri það umtalsvert hagkvæmara að allir mundu aka um á einkabílum heldur en að setja upp samgöngukerfi líkt og Borgarlínu.

Best væri að fá þessi meðaltöl gefin út af strætó, hversu margir eru að meðaltali í hverjum vagni. hver er meðal eyðslan o.s.frv. Bifreiðin veitir meiri þægindi, sveigjanleika, hraða, og öryggi. Ekki má gleyma möguleikanum að geta flutt með sér matvörur, barnabörn og önnur dýrmæti.

Það er mikilvægt að allar hliðar á þessum málum séu skoðaðar gaumgæfilega áður en ákvarðanir um milljarða fjarfestingar líkt og fyrirhugað er með Borgarlínu eru settar fram. En líkt og oft áður eru raunverulegar upplýsingar eins og þær sem reifaðar eru hér að ofan ekki lagðar fram af aðstandendum þessa verkefnis.

Á sama tíma er verið að reyna að selja kjósendum það að þetta sé svo hagkvæmt og umhverfisvænt að auka almennigssamgöngur þegar staðreyndir þær sem hægt er að verða sér út um segja allt annað.

Byggt á greinum eftir Mikko Tuomela og Frank Palmer.

Comments

comments