Sagt er að sala ríkisins á landinu undir Reykjavíkurflugvelli til borgarinnar gætu reynst einhver afdrifaríkustu pólitísku mistök síðari ára. Sjálfstæðismenn um allt land, sem ekki tilheyra litlum kjarna á höfuðborgarsvæðinu sem reynt hefur árum saman að koma flugvellinum fyrir kattarnef, eru æfir af bræði yfir því að þetta hafi verið gert á þeirra vakt.

RánfuglinnSegja þeir málið vera óskiljanlegt því að fjármálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið séu bæði í tryggum höndum flokksins – mönnuð engum öðrum en formanni og varaformanni hans og því hefði átt að vera auðvelt að koma í veg fyrir söluna, sem einn viðmælandi Meinhornsins úr hópi sjálfstæðismnanna á Norðurlandi kallaði „svívirðilega árás á landsbyggðina“. Víða heyrist spurt hvernig treysta megi því að mikilvægar úrbætur, t.d. í samgöngum og heilbrigðismálum, verði gerðar á landsbyggðinni ef þessir grundvallarhagsmunir fólks úti á landi séu fyrir borð bornir á þennan hátt fyrir litla upphæð.

Þá heyrast fjölmargir sjálfstæðismenn í lögmannastétt taka undir með Jóni Steinari Gunnlaugssyni fyrrverandi Hæstaréttardómara sem sagði í grein í Morgunblaðinu í vikunni að sala ríkisins á landinu undir flugbrautinni gangi jafnvel gegn stjórnarskrá:

Í tilefni af þessu er nauðsynlegt að benda á eftirfarandi lagaatriði sem varða heimild ríkisins til að láta af hendi fasteignir sínar. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar er áskilið að ríkið megi ekki láta neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra af hendi nema samkvæmt lagaheimild. Þegar þessi áskilnaður um lagaheimild er gerður í stjórnarskrá er alveg ljóst að heimild í fjárlögum dugar ekki. Til afhendingar á fasteignum ríkisins þarf heimild í almennum lögum. Þessi skilningur styðst við óumdeilda skoðun fræðimanna í lögfræði. Þannig segir til dæmis á bls. 328 í ritinu Stjórnskipun Íslands, 2. útgáfu, 1999, þar sem rætt er um fjárlög og tengsl þeirra við almenn lög: „ … er óumdeilt meðal fræðimanna að áskilnaður í stjórnarskrá um lög feli í sér að ekki megi taka slíka ákvörðun með fjárlögum“

Margir minnast þess þegar Jón Gnarr borgarstjóri brást með skætingi við undirskriftum 70.000 íslendinga gegn lokun Reykjavíkurflugvallar undir merkjum stuðningssamtakanna Hjartað í Vatnsmýri og bæði þáverandi og núverandi borgarstjórnarmeirihlutar vinstri flokkanna hafa sýnt undirskriftunum fullkomna vanvirðingu. En í forystu undirskriftasöfunarinnar voru meðal annarra þeir Friðrik Pálsson athafnamaður, Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri og fleiri sterkir baráttumenn af hægri væng stjórnmálanna sem hafa barist hart fyrir tilveru þessa mikilvægasta mannvirkis innanlandssamgangnanna.

Ljóst er af viðbrögðum við landsölunni að fjölmargir stuðningsmenn samtakanna um allt land, sem þar til í liðinni viku töldu sig geta treyst á Sjálfstæðisflokkinn í flugvallarmálinu, telja sig illa svikna og leggi nú traust sitt á baráttu þingmanna Framsóknarflokksins fyrir færslu skipulagsvaldsins yfir flugvellinum til ríkisins og á tillögu sem lofað hefur verið að komi fram á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Eftir þennan skyndilega viðsnúning Sjálfstæðisflokksins í málinu verði flugvellinum aðeins bjargað með því að lagst verði fast á árar með slíku átaki á Alþingi. Aðeins þannig fái rödd allra landsmanna að heyrast og vitinu verði mögulega komið fyrir þá sem nú láta neyðarflugbrautina og þar með Reykavíkurflugvöll gossa niður um salernið átakalaust – hvort sem þeir aðilar séu borgarstjórarmeirihlutinn sem lengi hefur reynt að drepa flugvöllinn eða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem flúðu síðustu varnarlínu ríkisins í málinu.

 

Comments

comments