Ég vil varpa þeirri spurningu fram hvort það geti virkilega verið þannig að ekki liggi fyrir lagaleg heimild fyrir því að hafa húsnæðisliðinn inni í neysluvísitölunni sem hagstofan mælir og gefur út. En inná vef Hagstofunnar kemur fram að vísitala neysluverðs sé reiknuð samkvæmt íslenskum lögum (nr. 12/1995 og nr. 27/2007).  Það er rétt að geta þess að ég finn ekkert um það í íslensku lögunum hver það er sem ákveður t.d. að húsnæðisliðurinn eigi að vera inní neysluvísitölunni.

Það er hins vegar rétt að vekja sérstaka athygli á því að á vef Hagstofunnar segir að útreikningur vísitölunnar taki að verulegu leyti mið af aðferðum sem beitt er við útreikning á samræmdri vísitölu neysluverðs fyrir EES ríki einnig segir að samræmda neysluverðsvísitalan sé reiknuð í samræmi við þau ESB lög sem um hana gilda.

Þá komum við að því álitaefni hvort það sé yfir höfuð lagleg heimild fyrir því að húsnæðisliðurinn sé hafður inni í íslensku neysluvísitölunni vegna þess að öll ríki innan EES og ESB mæla neysluvísitöluna án húsnæðisliðar og eins og fram kemur á vef Hagstofunnar fer útreikningur samræmdrar neysluvísitölu fyrir lönd innan EES og ESB fram í samræmi við ESB lög.

Spurningin er því hvort samræmda neysluvísitalan sem reiknuð er út fyrir EES löndin sé bundin í EES samningum. Einnig er spurning hvort kveðið sé á um það í lögum ESB að samræmda neysluvísitalan eigi að reiknast án húsnæðisliðar. Alla vega er ekkert Evrópuland hvorki innan EES né innan ESB með húsnæðisliðinn inní sinni neysluvísitölu nema Ísland!  Af hverju er það? Er það vegna þess að slíkt er bannað samkvæmt lögum ESB? Spyr sá sem ekki veit.

Það liggur allavega fyrir að mæling með húsnæðisliðnum er séríslenskt fyrirbæri sem þekkist ekki í neinu Evrópulandi nema hér á landi og það liggur líka fyrir að húsnæðisliðurinn hér á landi hefur knúið verðbólguna áfram bæði fyrir og eftir hrun með skelfilegum afleiðingum fyrir skuldug heimili og fyrirtæki. Sem dæmi þá hefði verðbólgan á Íslandi verið 2,4% að meðaltali frá árunum 2003 til 2007 ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inni eins og er hjá öðrum Evrópuþjóðum. Raunin varð hinsvegar sú að meðaltalsverðbólga var hátt í 5% vegna þessarar séríslensku aðferðar við mælinguna.

Það er líka rétt að geta þess að frá árinu 2003 til 2007 hækkaði Seðlabankinn stýrivextina úr 5,3% í 13,3% til að slá á verðbólguna en ef íslenska neysluvísitalan hefði verið mæld án húsnæðisliðar hefði verðbólgan verið sambærileg og hjá öðrum Evrópuþjóðum og því hefði verið ástæðulaust að hækka stýrivextina með þessum hætti sem gert var á árunum 2003 til 2007.  Hugsið ykkur skaðann sem þetta hefur valdið íslenskum heimilum og fyrirtækjum og hann hleypur klárlega á mörg hundruð milljörðum. Því er mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvort lagalegar heimildir séu fyrir því að hafa húsnæðisliðinn inni á Íslandi, einu Evrópulanda. Og ef það er lagaleg heimild, hver tekur þá ákvörðun? Alla vega hef ég ekki fundið því stoð í íslenskum lögum að húsnæðisliðurinn eigi að mælast hér á landi með öðrum hætti en hjá öllum öðrum Evrópulöndum.

Þetta skiptir íslenska neytendur gríðarlega miklu máli í ljósi þess að nánast allar fjárskuldbindingar heimila og fyrirtækja taka hækkunum samkvæmt hækkun á neysluvísitölunni!

Í ljósi alvarleika málsins skora ég á ráðamenn að svara íslenskum almenningi og gefa það upp hver tekur ákvörðun um að hafa húsnæðisliðinn inni og á hvaða lögum er það byggt? Og er það í samræmi við samræmda neysluvísitölu sem EES og ESB ríkin nota og er bundin í lög ESB?

Comments

comments