Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA hefur náð að skapa sér gott orð meðal neytenda vegna einarðrar framgöngu sinnar til lækkunar vöruverðs. Hann var í mjög athygliverðu viðtali í DV um nýliðna helgi þar sem hann m.a. lýsti því yfir að neytendur væru komnir með upp í kok af þeim aðilum sem hafa stýrt heild- og smásölumarkaði hér á landi.

Veggurinn telur að Þórarinn hitti hér naglann á höfuðið. Ráðandi aðilar á smásölumarkaði hafa í langan tíma komist upp með verðlag sem varla getur flokkast undir annað en græðgi. Allt í skjóli fákeppni. Þóraninn spáir því að innkoma Costco á markað hér eigi eftir að hafa veruleg áhrif á vöruliði eins og dekk, tölvur og raftæki. Á þessum vöruliðum er álagning há og samkeppni ekki eins mikil og á dagvörumarkaði.

Alveg ljóst er að neytendur bíða komu Costco með mikilli eftirvæntingu. Opnun verslunar Costco á Íslandi mun hafa veruleg áhrif rekstur innflutningsfyrirtækja og heildsala hér á landi. Áhrifin á þá aðila verða jafnvel meiri en á aðra smásöluaðila. Stærð og umfang Costco gefur versluninni gríðarlegt vald í samskiptum við birgja og getur fyrirtækið því náð innkaupaverði sem aðrir smásalar geta illa keppt við. Reynslan frá öðrum löndum sýnir að neytendur eru látnir njóta hagstæðra innkaupa hjá fyrirtækinu. En það er eitthvað sem íslenskir neytendur eiga ekki að venjast nema að verulega takmörkuðu leiti.

Comments

comments