Tæpast hefur fari fram hjá nokkrum manni að til stendur að hækka um þrep í virðisaukaskatti þá aðila sem eru í ferðaþjónustu. Bæði forsætis- og fjármálaráðherra hafa fengið tóninn frá frammámönnum í þessari grein. Í Sjálfstæðisflokknum eru þingmenn sem þegar hafa lýst yfir andstöðu við þessar hugmyndir en minna virðist um óánægju meðan þingmanna Viðreisnar.

Þráinn Lárusson

Ljóst er að ferðaþjónustan er mjög stór grein og ef þessi aðgerð veldur því að fólk fer að missa vinnu í stórum stíl má búast við því að það kvarnist duglega úr fylgi þessara flokka. Daglega má sjá innmúraða sjálfstæðismenn lýsa því yfir á Facebook vegg sínum að nú hafi leiðir þeirra og Sjálfstæðisflokksins endanlega skilið. Þannig sá ég til að mynda færslu frá Þránni Lárussyni athafnamanni og hótelhaldara á Egilsstöðum þar sem hann tilkynnir úrsögn sína úr flokknum. Þráinn skrifar.

„Jæja gott fólk. Í dag sagði ég mig úr Sjálfstæðisflokknum! Ég hef verið í flokknum í bráðum 30 ár og gengt mörgum trúnaðarstörfum. Ég var bæjarfulltrúi flokksins 2006 -2010. Ég hef verið varaformaður kjördæmisráðs, formaður fulltrúaráðs og formaður félagsins hér fyrir austan. Nú er það komið í ljós að forusta flokksins er grímulaust að svíkja kosningloforð sem flokkurinn gaf út fyrir kosningar. Þar á ofan ætlar forsætisráðherra með þeirri ákvörðun sinni að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna að ganga gegn ákvörðun landsfundar, æðsta valdi flokksins . Þetta er algjörlega ólíðandi.“

Jóhannes Geir Sigurgeirsson

En það hefur blásið á fleiri stöðum. Jóhannes Geir Sigurgeirsson fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins rekur fjölskylduhótel með börnum sínum í Eyjafirði. Hann skrifaði athugasemdir við tilvitnun í fjármálaráðherra sem birtist á mbl.is. Þar lýsti ráðherra því að þessi hækkun á virðisaukaskatti væri einnig hugsuð til þess að fækka ferðamönnum. Jóhannes ritaði í tilefni af þessu.

„Veit ráðherrann ekki að virðisaukaskatturinn er neysluskattur sem fyrirtækin rukka fyrir hönd ríkisis? Htt er svo annað mál að við vissar aðstæður er ómögulegt fyrir fyrirtækin að bæta skattinum ofaná verðið. T.d. fyrir fyrirtæki þar sem verð í mynt viskiptavinanna hefur hækkað um allt að 40%. Telur ráðherran ekki að slík hækkun ein og sér dugi til að draga úr áhuga á viðskiðtunum ef það er aðal tilgangur með hækkuninni? Er það bara dagsformið sem ræður hver ástæðan er. Hún var kynnt sem kerfisbreyting í upphafi. Hverð konar hringlandahattur er þetta eða er hér um að ræða flótta frá eigin ákvörðun?“

Jóhannes Geir telur einnig að fjármálaráðherra þurfi að fá betri ráðgjöf því eftir honum var haft að hann ráðfærði sig við aðila í ferðaþjónustunni sem sagði honum að nú í maí færu að berast bókanir fyrir sumarið 2018 og þess vegna væri nægur fyrirvari að hækka vaskinn 1. júli 2018. Jóhannesi er heitt í hamsi þegar hann skrifar.

„Er ekki í lagi með manninn!!!! Hvað ætli margir séu búnir að bóka meira eða minna allt sumarið 2018. Eru þetta vinnubrögðin?“

Það vekur furðu að ráðherra ferðamála Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir virðist alveg sleppa við gagnrýni á meðan frændurnir Bjarni og Benedikt fá að heyra það óþvegið. Ljóst er að mótmælaaldan er rétt að hefjast. Sjálfstæðisflokkurinn er stærri og þolir nokkra ágjöf áður en stoðir bresta. Viðreisn er frekar spurning ekki er víst að flokkurinn þoli ágjöf og þrýsting eins og þann sem núna hefur verið í gangi.

Spurningin sem allir bíða eftir að fá svar við er því þessi, mun Viðreisn þola ágjöfina frá ferðaþjónustunni.

Comments

comments