Skemmtiferðaskip í Grundarfirði  Mynd Tómas Freyr Kristjánsson

Skemmtiferðaskip í Grundarfirði Mynd Tómas Freyr Kristjánsson

Mikill fjöldi ferðamanna kemur af skemmtiferðaskipum til að ferðast um landið. Stoppa skipin í nokkrar klukkustundir á hverjum stað  og er farið með fólkið í rútum í nágrennið. Skipin selja ferðirnar um borð og kaupir ferðaskrifstofan sem er með skipið hópferðirnar af völdum ferðaþjónustuaðilum hér á landi. Dagsferðirnar eru skipulagðar þannig að allt er innifalið og lögð er áhersla á að farþegar þurfi ekki að taka upp veskið í þessum ferðum. Passar útgerðin uppá að peningunum sé eytt um borð en ekki í landi.

Í Fréttablaðinu í dag skrifar Úrsúla Jünemann grein um vanda sinn og ferðamanna sem hún er með í leiðsögn um landið. Þar segir hún..

Hvað fær gömlu konuna á níræðisaldri til að skríða undir hliðið þar sem menn eiga að borga fyrir afnot salerna? Nei, hún ætlar svo sannarlega ekki að svindla sér inn. Þetta gerði hún í algjörri neyð, var hvorki með kort né krónur og varð að komast á klósettið. Hvað gerir leiðsögumaður ef eldri maður spyr hvort hann megi pissa úti í móa, hann geti ekki haldið í sér lengur? Jú, leiðsögumaður kinkar kolli vandræðalega, hvað er hægt að gera annað?

segir hún frá einni slíkri dagsferð:

Um daginn fór ég „sprenghring“ í kringum Mývatnið. Fimm og hálfur tími átti að duga til þess. Kaffistopp var á áætlun þremur og hálfum tíma eftir brottför frá höfninni og einasta tækifærið til að komast á salerni á undan var í Dimmuborgum. Og þar er þetta hlið sem hleypir fólkinu einungis inn gegn greiðslu. Skipafarþegar sem stansa stutt hér á landi eru upp til hópa ekki með íslenskar krónur og oft með kortin sín á skipinu. Klárlega vantar upplýsingar frá skipinu um hvernig klósettmálin standa víða á vinsælum ferðamannastöðum.

að lokum segir hún :

Eldra fólk, sérstaklega konur, þarf einfaldlega að komast oftar á salernið. Væri það mikið mál að setja upp nokkur færanleg klósett á aðalstoppistöðvunum? […] Aðila[r] sem græða á tá og fingri á ferðamönnum munar ekkert um að splæsa í nokkra kamra og halda þeim við.

Ástandið eins og það er núna er alveg ólíðandi og ég skammast mín fyrir landið okkar þegar mér er gert að fara með ferðamenn í svona sprengferð.

Skömmin er sem sagt okkar landans segir Úrsüsla. Aðrir sem „græða á tá og fingri“ eiga að setja upp salerni til þess að þjónusta hennar ferðamenn sem hvergi kaupa þjónustu nema þá sem búið er að kaupa fyrirfram af skemmtiferðaskipinu eða ferðaþjónustuaðilanum. Margir hafa bent á sveitarfélögin og ríkið að það eigi að grípa til ráðstafana og alls ekki megi setja takmarkanir á fjöldann, hvað þá að einkaaðilar rukki fyrir aðgang að sínu landi.  Er ekki ráðið að aðilar sem er að þjónusta þetta fólk horfi í eigin barm og sjái sóma sinn í að þjónusta sitt fólk og beri ábyrgð á því sjálft. Vel er fylgst með hvar og hvernig skemmtiferðaskipin losa sinn úrgang en ekkert gera þau til þess að ferðamennirnir geti losað sinn sómasamlega. Úrsüslu get ég bent á lausn sem er algeng fyrir ferðamenn í 5-6 tíma rútuferð að vera með salerni í langferðabifreiðinni.

Comments

comments