Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður

Einar S. Hálfdánarson
hæstaréttarlögmaður

Einar S. Hálfdánarson ritar grein í Morgunblaðið í morgun sem hann kallar „Jólasveinar á Alþingi“ hann varpar upp skemmtilegri sýn á þá umræðuhefð sem skapast hefur eftir samfélagsmiðlavæðingu þjóðarinnar. Þar segir hann meðal annars.

„Stóru málin á Íslandi hefjast einatt á svipaðan máta. Fréttakonan horfir í myndavélina, pírir augun og predikar í spákonustíl. Svo tekur næsti fjölmiðill málið upp og svo koll af kolli. Málefnin eru í anda tímans. Einhver þarf nauðsynlega að neyta eiturlyfja, en óréttlát lög banna o.s.frv. Málið núna var albanskir innflytjendur sem fluttu hingað til að reyna að komast í betri læknisþjónustu en býðst í Albaníu.“
Einar dregur hér fram raunsanna mynd af unglingum í fréttamennsku sem álíta oftar en ekki að háværir minnihlutahópar á umræddum samfélagsmiðlum endurspegli þjóðina að einhverju leiti. Gefum Einari orðið.
 „Auðvelt er að skilja foreldra barnanna sem um ræðir. Ég þekki mjög vel til í Austur-Evrópu. Annars flokks kerfið okkar er þó miklu betra en þar. Útlendingar geta, ofan í kaupið, hvergi mætt á spítala í neinu öðru landi og farið fremst í biðröðina – nema auðvitað á Íslandi. En Útlendingastofnun brást ekki lagaskyldum sínum og tók ábyrga og erfiða ákvörðun. Það að þurfa að komast ókeypis í betri umönnun en í heimalandinu telst ekki gild ástæða til að biðja um hæli, hvorki hér né nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli.Margir góðir fréttamenn eru gjörkunnugir Norðurlöndunum. Af hverju upplýsa þeir ekki um það sem satt er og rétt í málefnum útlendinga? Þora þeir ekki að lenda í kjaftakvörninni? Starfsfólkið í Útlendingastofnun þarf svo að sæta ofsóknum jafnvel morðhótunum fyrir að fara að lögum. Ribbaldar á netinu kalla þau svo rasista. Það verður að virða þeim fáviskuna til betri vegar, en auðvitað erum við og Albanar af sama kynþætti. Kynþáttahatur er þessu óviðkomandi.“
Og áfram heldur Einar.
„Nú bar svo við eftir að Albanarnir höfðu verið sendir úr landi líkt og gert hefði verið alls staðar annars staðar, að þá fyrst hófst fárið. Fyrst var hjólað í ráðherrann. Hún hafði ekki kjark til að standa með starfsfólkinu sem fór að lögum. Þá steig fram þingmaðurinn Unnur Brá, afkróuð af fréttamanni. Hún virtist á barmi taugaáfalls þegar hún tjáði sig um málið. Hún og félagar hennar í allsherjarnefnd ætla að veita langveiku börnunum og fjölskyldum þeirra ríkisborgararétt.“… „Hvaðan kemur Alþingi heimild til leika jólasveininn og gefa ríkisborgararétt og sjúkrahúspláss til tiltekinna, nafngreindra útlendinga? Þekkir formaður allsherjarnefndar virkilega ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og hvað það felur í sér? Hvað segja þingmenn um þessa nýjung eða þá þeir sem gæta eiga réttinda almennings? Hvað segja ASÍ, SFR og samtök aldraðra? Eða þá Ögmundur og Össur? Er þetta bara allt í lagi?“
Einar kallar þessa aðferð við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu „Albönsku aðferðina“ í niðurlagi greinar sinnar segir hann.
„Albanska aðferðin við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu er væntanlega það sem koma skal. Langur biðlisti er t.d. eftir hjúkrunarrýmum fyrir aldraða Íslendinga sem unnið hafa að því hörðum höndum alla tíð að byggja upp inniviði heilbrigðisþjónustunnar (líklega rétt að nota orðtakið alla sína hunds- og kattartíð í nýja samhenginu). Nú ættu barnabörnin að kalla fréttakonuna til. Hún pírir augun, dýpkar röddina og talar með þungum og undarlegum áherslum: »Þetta er hann Jón. Hann vann frá blautu barnsbeini við byggingarvinnu. Nú fær hann ekki pláss á hjúkrunarheimilinu. Verður það hlutskipti hans að gista í útihúsi á jólanótt?“

Comments

comments