Ruglið í kringum hækkun á neysluvísitölunni heldur áfram. Í dag er 12 mánaða verðbólgan 1,7% en án húsnæðisliðar er hún neikvæð sem nemur 2,6%.

Sem sagt, enn og aftur er það hækkun á fasteignaverði og leigu sem knýr verðbólguna áfram og enn og aftur horfa ráðamenn og þingmenn aðgerðalausir á þessa staðreynd.

Óskiljanlegt er að lögum um vexti og verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimila og fyrirtækja sé ekki breytt þannig að verðtrygging miðist við neysluvísitöluna án húsnæðisliðar.

Ef við skoðum hvaða áhrif þetta hefur á verðtryggðar skuldir heimilanna þá kemur í ljós að þær hafa hækkað um 34 milljarða á síðustu 12 mánuðum en ef húsnæðisliðurinn væri ekki inni þá hefðu verðtryggðar skuldir lækkað um 52 milljarða. Hér er mismunur upp á 86 milljarða sem færðir hafa verið frá heimilunum yfir til fjármálaaflanna.

Getur einhver bent mér á hvaða mál er brýnna fyrir hagsmuni almennings og skuldsett heimili en að breyta lögum um vexti og verðtryggingu þannig að húsnæðisliðurinn sé ekki reiknaður með hvað varðar verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna?

Comments

comments