Miklum meirihluta þjóðarinnar var verulega misboðið í gær þegar Kastljós RÚV rakti sögu eggjaframleiðandans Brúnegg. Þarna fékk orðatiltækið einbeittur brotavilji alveg nýtt flug. Það vakti ekki síður athygli hvernig stjórnkerfið og eftirlitsiðnaðurinn brugðust í þessu máli. Það er til lítils að setja upp eftirlitskerfi með ærnum tilkostnaði ef niðurstöður þess eiga að vera huldar sjónum almennings. Nýr formaður neytendasamtakanna hitti algerlega í mark þegar hann sagði í viðtali í gær að besta eftirlitið fælist í því að upplýsa neytendur.

Í þessu sorglega máli kom fram að Matvælastofnun (MAST) tilkynnti bréflega árið 2013 til viðeigandi ráðuneytis um grunsemdir sínar þess eðlis að verið væri að svindla á neytendum hjá eggjaframleiðandanum Brúnegg. Óskýrt er hvers vegna ráðuneytið kaus að aðhafast ekkert. En það er eitt af því sem grafa þarf upp. Hvað gerðist í ráðuneytinu?

Styrkja þar löggjöf og regluverkið í kringum matvæla eftirlit. Gera þarf það skilvirkara og gagnsætt. Til dæmis með því að gera allar skýrslur eftirlitsaðila opinberar strax. Slíkt mundi auðvelda samtökum eins og neytendasamtökunum að sinna eftirlitsskyldu með framleiðslunni, neytendum til hagsbóta.

Rétt er hér að rifja upp MAST til varnar að stutt er síðan Héraðsdómur sakfelldi MAST fyrir að upplýsa um kjötbökusvindlið í Borgarnesi. Þar var framleiðandi að blekkja neytendur. Framleiðandi sem nú í krafti Héraðsdóms og illa skrifaðrar löggjafar getur væntanlega sótt bætur þrátt fyrir að ljóst sé að þúsundir heimila voru vísvitandi blekkt.

Nú er tækifæri fyrir nýjan formann neytendasamtakanna að taka forystu í þessu máli og taka að sér eftirlit með matvælaframleiðslu fyrir hönd neytenda.

Comments

comments