Neytendur ætlast til þess að seljandi vöru komi heiðarlega fram og upplýsi á heiðarlegan hátt um uppruna þess sem í boði er. Á samfélagsmiðlum fyrtast menn við ef þeir telja að siglt sé undir fölsku flaggi. Þó er ávalt eitthvað um þetta. mögulega meira en við gerum okkur grein fyrir í upphafi. Ástæða þessara vangaveltna er ekki eggjamálið mikla sem tengist fyrirtækinu Brúnegg heldur frétt sem birtist á mbl.is í gær. Í þessari frétt er skýrt frá því að Utanríkisráðuneytið ætli sér að greiða íslenskum fjölmiðli tíu milljónir króna til þess að fjalla um þróunarmál í eitt ár. Auglýsing þessa efnis birtist á vef Ríkiskaupa. Tilgangurinn er sagður vera sá að auka umfjöllun frjálsra fjölmiðla um þróunarmál.

Í lýsingu verkefnisins hjá Ríkiskaupum kemur fram að stjórnvald sem fari með opinbera þróunarsamvinnu hafi ríkar skyldur um upplýsingamál um málaflokkinn. Fyrirhugað er að semja við einn íslenskan fjölmiðil í þessu samhengi.

Þetta verður að telja nokkuð sérstakt. Að opinber stofnun eða ráðuneyti óski opinberlega eftir viðskiptasambandi við fjölmiðil til þess að koma upplýsingum á framfæri. Yfirleitt hafa fjölmiðla tekið slíkum málaleitunum illa og talið þetta rýra ritstjórnarlegt sjálfstæði miðilsins. Samt er það svo að í langan tíma hefur viðgengist að hægt sé að kaupa sér aðgang að miðlum. Þannig er alþekkt á auglýsingamarkaði að ein aðferð til þess að loka samningum um auglýsingabirtingar er að lofa umfjöllun um viðkomandi vöru eða fyrirtæki í þeim tilgangi að gera heildar kaupin álitlegri.

Lengi hefur verið orðrómur um að ákveðin fyrirtæki og stofnanir kaupi sér aðgang að miðlum með einum eða öðrum hætti án þess að neytendur séu upplýstir um það. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur á Akureyri skrifaði pistil fyrir um ári síðan þar sem hann bendir á það öfugmæli að kalla einkarekna fjölmiðla frjálsa. Hann skrifar:

„Meðal þess valds sem fjölmiðlum er ætlað að veita aðhald er peningavaldið. Það hlýtur að vera eitt af undrum veraldarinnar að menn sjái ekki þau augljósu staðreynd, að fjölmiðlar geta illa sinnt því verkefni ef þeir eru í eign þeirra sem þeir eiga að gagnrýna.

Svonefndir „frjálsir“ fjölmiðlar eru því alls ekki frjálsir.“

Séra Svavar hittir hér naglann á höfuðið. Ljóst má vera að margir einkareknir miðlar eru háðir þeim sem skapa tekjur. Eldveggur sá sem dregin er hefur verið upp á milli þeirra sem útbúa dagskrá og þeirra sem selja auglýsingar virðist vera að þynnast. Þannig er augljóst m.a. í opinberum fyrirtækjum sem eru á auglýsingamarkaði, að birtingar eru keyptar í takti við málflutning viðkomandi fjölmiðils. Þeir sem andmæla eða hafa aðrar hugmyndir, eða skrifa fréttir sem draga fram sjónarmið sem eru ekki í takt við viðurkennda línu eru settir í frost varðandi kaup á auglýsingabirtingum.

Það er því stöðugt verið að blekkja neytendur í fjölmiðlaheiminum í dag. Viðtöl, umfjallanir og fréttir eru í mörgum tilfellum kostaðar með einum eða öðrum hætti án þess að upplýst sé. Stundum er þetta augljóst en ekki alltaf. Öll höfum við séð heilsíðu blaðaviðtalið við verslunareigandann sem auglýsir svo nokkrum síðum aftar í sama blaði. Eða heyrt ýtarlegt viðtal á útvarpsstöðinni og í kjölfarið birtast auglýsingar frá viðkomandi verslun út vikuna.

Er sjálfstæði íslenskra einkarekinna fjölmiðla á undanhaldi? Er sá tími að renna upp að fjölmiðlar landsins verði að segja frá fílnum í stofunni eða þurfa þeir að halda áfram að þykjast ekki sjá hann, til þess eins að lifa af?

 

 

Comments

comments