Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, fer fram á af­sök­un­ar­beiðni til sín og eig­in­konu sinn­ar, Önnu Sig­ur­laug­ar Páls­dótt­ur, frá út­varps­stjóra vegna fram­göngu Rík­is­út­varps­ins í tengsl­um við um­fjöll­un RÚV um Panama-skjöl­in.

Í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag rek­ur Sig­mund­ur Davíð kynni sín af Rík­is­út­varp­inu sem stjórn­mála­maður en áður starfaði hann þar sem fjöl­miðlamaður. Meðal ann­ars seg­ir Sig­mund­ur frétta­mann hafa kallað sig skít­hæl í sam­tali sem þeir áttu vegna Ices­a­ve-samn­ing­anna á sín­um tíma. Þá seg­ir Sig­mund­ur það vera ríkj­andi viðhorf á RÚV að játa aldrei mis­tök.

Grein Sig­mund­ar Davíðs er ít­ar­leg, hana er hægt að lesa í heild í Morg­un­blaðinu, blaðsíðu 26-27. Sigmundur rifjar þar upp nokkur ummæli sem fréttamenn RÚV hafa þrumað á hann. Sigmundur skrifar:

„Eftir að forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í fyrra skiptið fór ekki á milli mála að margir innan stofnunarinnar töldu ábyrgð mína mikla. Ég fékk t.d. skilaboð um að hringja í fréttamann á Útvarpinu til að svara spurningum um málið. Ég hringdi og þegar fréttamaðurinn svaraði heilsaði hann með því að segja: „Hvað segir þú skíthæll?“ Svo var ég beðinn að koma í Efstaleiti í viðtal þar sem ég fékk ekki mikið betri móttökur. Æstur starfsmaður fréttastofunnar (sem greinilega trúði eigin áróðri) spurði mig: „Hvað ert þú eiginlega búinn að gera, nú hrynur allt!“

Sigmundur heldur áfram að rifja upp samskipti sín við RÚV og skrifar.

„Fyrir kosningar 2009 var enginn skortur á viðmælendum sem útskýrðu að skuldalækkun og forsendur hennar væru eintómur popúlismi. Það sama var upp á teningnum 2013. Þá fengu menn stöðugt að heyra að ég væri með óábyrgar og óframkvæmanlegar hugmyndir og væri að skapa óraunhæfar væntingar. Enginn skortur var á sérfræðingum til að útskýra hversu vitlaust þetta væri allt saman og reglulega var minnt á eignarrétt kröfuhafa.“

Í þessu sambandi er rétt að rifja hér upp frægt viðtal Kastljósins við Sigmund vegna kröfuhafa.

Sigmundur rekur síðan ítarlega hvernig hann og kona hans sendu fjölmiðlum þ.á.m. RÚV ítarlegar upplýsingar um tilhögun þeirra fjármuna, án þess að nokkuð af því hefði fengið umfjöllun.  Hann skrifar.

„Víkur þá sögunni að nokkrum staðreyndum um málið sem RÚV nýtti á þann hátt sem ég lýsti hér að ofan.

1. Skattar greiddir eins fyrir íslenskt félag

Hvorki ég né eiginkona mín áttum eignir í skattaskjóli. Eignir eiginkonu minnar hafa verið í fjárstýringu hjá erlendum banka, frá því við vorum búsett erlendis. Erlent félag, sem þáverandi viðskiptabanki skráði og gaf nafnið Wintris, hélt utan um eignirnar. Því fyrirkomulagi var ekki á nokkurn hátt komið á til að draga úr skattgreiðslum á Íslandi. Enda hafa eignirnar í skattframtölum verið taldar fram sem eignir eiginkonu minnar og tekjur af þeim sem tekjur hennar. Kona mín sýndi þannig einbeittan vilja til að greiða til samfélagsins og enga tilburði til að nýta tækifæri til annars.

2. Aldrei reynt að fela það

Enda sá hún aldrei ástæðu til að fela tilvist félagsins eða skráningarlands þess. Það hefur birst á skattframtölum frá upphafi, nafn, skráningarland og eignir. Auk þess hafði ég löngu ákveðið með ríkisstjórninni að kaupa gögn um félög erlendis (sömu gögn og Ríkisútvarpið byggði umfjöllun sína á) og afhenda skattrannsóknarstjóra. Það skipti mig engu hvaða upplýsingar væri að finna í þeim »Panama-skjölum« enda aldrei reynt að fela tilvist félagsins.

3. Ekki bara samviskusöm heldur fórnfús

Ekki aðeins sýndi kona mín einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu og afþakkaði auk þess alla möguleika á að fresta eða draga úr skattlagningu á Íslandi. Hún sýndi líka að hún var reiðubúin til að fórna eins miklu og þurfa þætti svo að samfélagið gæti komist á réttan kjöl. Hún hafði átt eignir í hinum föllnu bönkunum í formi skuldabréfa sem lagalega voru eins og hverjar aðrar innistæður. Flestar af þessum eignum töpuðust eða voru teknar til að gera að fullu upp við þá sem áttu sams konar eignir skráðar sem innistæður eða í peningamarkaðssjóðum (sem eru skuldabréf). Samt studdi hún mig í þeirri baráttu að ganga enn á það sem eftir var af eignunum hennar svo hægt væri að koma til móts við skuldsett heimili og rétta af efnahagslíf landsins. Ég hafði ekki kunnað við að stæra mig af þessu en Kastljós sneri því á hvolf og gaf í skyn að það væri stórkostlega grunsamlegt að vera reiðubúinn til að fórna eigin hagsmunum. Ekkert hefur farið fyrir umræðu um hagsmunatengsl þeirra sem tóku ákvörðun um að verja innistæður og eignir einstaklinga í peningamarkaðssjóðum upp á hundruð milljóna eða milljarða (og það á kostnað konu minnar og annarra). Réttlæti RÚV felst í að níða þá í svaðið sem eru tilbúnir að fórna eigin hagsmunum en líta fram hjá því þegar menn verja eigin hagsmuni. Það er sitt hvað réttlæti og RÚV-læti

4. Nýtti ekki tækifæri til að hagnast á íslenskum aðstæðum

Efnaðasta fólk á Íslandi eru þeir sem áttu peninga erlendis eftir hrun og nýttu þá til að kaupa á brunaútsölunni á Íslandi. Þeim sem áttu fjármagn í útlöndum bauðst að kaupa íslenskar krónur af Seðlabankanum á afslætti. Vextir voru settir í hæstu hæðir, jafnvel þótt um verðtryggðar eignir væri að ræða. Eiginkona mín ákvað hins vegar að á meðan ég væri í stjórnmálum kæmi ekki til greina að nýta slík tækifæri til að hagnast á aðstæðum á Íslandi enda hætt við að það hefði þótt orka tvímælis.

Hvað ætli Kastljós hefði sagt ef eiginkona mín hefði keypt krónur á afslætti og ávaxtað þær á háum verðtryggðum vöxtum á Íslandi eða notað þær til að kaupa t.d. hlutabréf í Icelandair?

Niðurstaða

Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu, þrátt fyrir að engu hafi verið haldið leyndu um hið erlenda félag og þrátt fyrir óþrjótandi vilja konu minnar til að fórna meiru fyrir samfélagið í stað þess að nýta sér neyð þess, hefur hún mátt þola að verða skotmark Ríkisútvarpsins og samverkamanna þess í þeim tilgangi að ná á mig höggi.

Við það var beitt aðferðum sem standast hvorki siðferðilegt, faglegt né lagalegt mat.

Því spyr ég útvarpsstjóra:

Eru þessi vinnubrögð samboðin þeirri stofnun sem þú stýrir og í samræmi við hlutverk hennar?

En ég spyr líka spurningarinnar sem við vitum líklega flest svarið við:

Ert þú reiðubúinn til að biðja mig afsökunar fyrir hönd Ríkisútvarpsins og ef ekki mig þá eiginkonu mína, konu sem átti svo sannarlega ekki skilið að fá þá meðferð sem hún hlaut af hálfu Ríkisútvarpsins á árinu 2016?“

Ljóst er að Magnús Geir á engan kost annan en að svara Sigmundi svo alvarlegur undirtónn er í þessu opinbera bréfi að þögn mun ekki losa útvarpsstjóra undan ábyrgð sinni.

Comments

comments