Jón Magnússon skrifar:

Bandaríkjaforseti hefur sent frá sér tilskipun sem takmarkar komu fólks frá Íran, Írak, Líbýu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Yemen til Bandaríkjanna í 90 daga og móttöku flóttamanna í 120 daga.

Í öllu því tilfinningalega umróti sem þessi ákvörðun hefur valdið þarf fólk ekki síst utanríkisráðherrar að átta sig á um hvað málið snýst og hvað er fordæmanlegt og hvað ekki.

Í fyrsta lagi þá er það óumdeilanlegur réttur frjáls og fullvalda ríkis að stjórna landamærum sínum og ákveða hverjir fái að koma inn í landið og hverjir ekki. Á þessum vettvangi hefur iðulega verið bent á það að lönd sem gefa þann rétt frá sér taka mjög mikla áhættu, sérstaklega varðandi öryggi eigin borgara eins og dæmin sanna í Þýskalandi og Frakklandi á síðasta ári.

Mörg Evrópuríki hafa nýtt þennan rétt sinn og lokað landamærum sínum fyrir ákveðnu fólki. Þannig bannaði Bretland hollenska stjórnmálamanninum Geert Wilders að koma til landsins vegna skoðanna sinna, en hefur nú fellt það niður. en Ýmsum öðrum er bannað að koma til Bretlands vegna skoðana sinna eins og t.d. rithöfundinum og fræðimanninum Robert Spencer sem er bandarískur ríkisborgari, en hefur þær skoðanir á Íslam að Bretar banna honum innkomu í landið. Stjórnmálamenn Vesturlanda þ.á.m utanríkisráðherra Íslands mætti hafa þetta í huga í pópúlískri herferð í anda rétttrúnaðarins.

Í öðru lagi þá er þessi tilskipun Bandaríkjaforseta í samræmi við það sem hann lofaði kjósendum sínum að hann mundi gera yrði hann kosinn. Stjórnmála- og fréttaelítan er svo gegnsýrð af því viðhorfi að kosningaloforð þýði ekki neitt að þeim virðist koma á óvart að stjórnmálamaður sem nær kjöri skuli framkvæma það sem hann sagði í kosningabaráttunni að hann ætlaði að gera.

Í þriðja lagi þá er Evrópusambandið að gliðna ekki síst vegna hugmynda um opin landamæri fyrst á milli aðildarríkjanna og síðar vegna fáránlegrar stefnu í innflytjendamálum efir að fjöldafólksflutningar hófust frá sumum Asíu ríkjum,  Mið-Austurlöndum og Afríku. Í hópi þeirra sem þannig hafa komið til Evrópu hafa verið hættulegir hryðjuverkamenn eins og hryðjuverkin í Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu sýndu svo ekki varð um villst.

Vegna opinna landamæra á milli Evrópuríkjanna áttu hryðjuverkamennirnir þeim mun auðveldar með að fara á milli landa sbr. þann sem framdi hryðjuverkið á jólamarkaðnum í Berlín nokkrum dögum fyrir jól.  Finnst einhverjum furða að stjórnmálamenn sem láta sér annt um öryggi borgara sinna vilji fara aðrar leiðir en ábyrgðarlausir stjórnmálaforingjar Evrópu?

Í fjórða lagi þá er það rangt að bannið beinist að Múslimum. Hefði svo verið þá tæki það líka til fjölmennustu ríkja múslima eins og Indónesíu, Egyptalands, Pakistan, Saudi Arabíu, Alsír og Marokkó svo dæmi séu nefnd. Staðreyndin sem þeim sést yfir sem hreykja sér hæst á fordæmingarhaug stjórnmála- og fjölmiðlaelítunnar er að tiskipun Trump beinist að þeim löndum þar sem Bandaríkjamenn hafa verið í sérstakri hættu og sú röksemd er notuð í tilskipuninni, en ekki gegn Íslam.

Í fimmta lagi þá má ekki gleyma því að Bandaríkin eru réttarríki og þó að forseti Bandaríkjanna gefi út tilskipun þá verður hún að standast lög landsins og stjórnarskrá. Miðað við það sem ég hef lesið mér til þá er líklegt að tilskipun Bandaríkjaforseta sé andstæð ákvæðum innflytjendalaga frá 1965 sem bannar mismunun innflytjenda á grundvelli þjóðernis. Þar kemur hins vegar á móti að ekki er verið að banna fólki frá ofangreindum löndum að koma nema tímabundið, sem hugsanlega gæti verið innan þeirra marka sem bandarísku innflytjendalögin kveða á um. Þá er spurning hvort tilskipunin brjóti í bág við 1. og 5 gr. bandarísku stjórnarskrárinnar.

Telji Bandaríkjaforseti að nauðsyn beri til að takmarka meir en nú er möguleika innflytjenda og hælisleitenda til að koma til Bandaríkjanna þá er það hans ákvörðu sem hann hefur rétt til að taka. Ákvörðunina má gagnrýna út frá sjónarmiðum um nauðsyn þess að ríki heims taki sameiginlega af mannúðarástæðum á móti raunverulegum flóttamönnum sem eru í hættu heima fyrir.

Því má ekki gleyma í því sambandi að kostnaður við hvern fóttamann sem tekið er á móti er svo mikill að aðstoða mætti a.m.k. tífallt fleiri til að lifa við mannsæmandi lífskjör á öruggum stöðum nálægt heimaslóðum en að flytja fólkið til Vesturlanda. Hjálpin mundi því nýtast mun betur og mannúðin taka á sig skilvirkari mynd með því að hjálpa fólki nálægt heimaslóð.

Málefni flóttafólks þarf virkilega  að ræða með raunsæum hætti, án upphrópanna og illyrða. Finna þarf ásættanlega lausn á fjölþjóðlegum vettvangi. Það verður að ræða af skynsemi og yfirvegun og vinna sig fram til lausnar sem tryggir sem mest öryggi borgara heimaríkis og mannsæmandi líf fyrir sem flesta.

Greinin á uppruna sinn á http://jonmagnusson.blog.is/

Comments

comments