husnaedismarkadurRUV birti á vef sínum í gær 29. mars frétt um vaxtalækkun á norskum húsnæðislánum. Norski seðlabanki lækkaði stýrivexti um miðjan mánuðinn, í 0,5%. Bankar í landinu hafa í kjölfarið verið að lækka vexti á húsnæðislánum. Ljóst er að íslenskir neytendur eru langt frá því að njóta sambærilegra kjara á sínum húsnæðislánum.

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi birtir svo í morgun stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni þar sem hann heldur því fram að neytendur hér greiði 300% hærri húsnæðisvexti en neytendur í Noregi gera. Vilhjálmur bendir á máli sínu til stuðnings að stýrivextir séu 1050% hærri hérlendis en í Noregi. Vilhjálmur spyr: hví í ósköpunum láta ráðamenn og Alþingi það átölulaust að verið sé að níðast svona á neytendum til að þóknast fjármálakerfinu?

Stöðufærsla Vilhjálms er hér birt í heilu lagi:

„Jæja þá liggur fyrir að á Íslandi greiða íslenskir neytendur tæplega 300% hærri húsnæðisvexti en í Noregi og vaxtamunurinn heldur bara áfram að aukast. Í Noregi bjóðast neytendum húsnæðisvextir á 1,9% á meðan okkur bjóðast 7,45% óverðtryggt. Þetta þýðir að af 35 milljóna króna láni hér á landi borga neytendur 2,6 milljónir í vexti á ári en í Noregi borga neytendur af samskonar láni 665 þúsund á ári. Vaxtabyrðin af slíku láni hér á landi er á mánuði 216 þúsund en í Noregi af sama láni einungis 55 þúsund. Takið eftir, hér munar hvorki meira né minna en 161 þúsundum króna á mánuði eða eins og áður sagði tæplega 300%.

Rétt er líka að geta þess að stýrivextir á Íslandi eru 1050% hærri en í Noregi en þar eru þeir 0,5% á meðan stýrivextir hér á landi eru 5,75%, en takið eftir verðbólgan í Noregi er hærri þar en hér því á síðasta ári var hún í kringum 2,5% í Noregi. Í dag tilkynnti Hagstofan að verðbólgan hér á landi er einungis 1,5% og án húsnæðisliðar eru hún bara 0,2%. Að stjórnmálamenn og Seðlabankinn skulu voga sér að koma svona fram við neytendur allt til að þóknast fjármálaöflunum er með ólíkindum. Að Seðlabankinn skuli komast upp með það að vera hér með stýrivexti sem eru 1050% hærri en í Noregi og það meira segja þegar verðbólgan er hærri í Noregi en hér á landi er svo gjörsamlega óskiljanlegt að það hálfa væri miklu meira en nóg.

Getur einhver stjórnmálamaður upplýst mig hvaða fjandans steypa er hér í gangi ár eftir ár og áratugi eftir áratugi? Og ég spyr: hví í ósköpunum láta ráðamenn og Alþingi það átölulaust að verið sé að níðast svona á neytendum til að þóknast fjármálakerfinu. Ef það er ástæða til að mótmæla einhverju þá er það vegna þessa ofbeldis sem neytendur eru beitir í vaxtamálum. Enda má alveg halda því fram með rökum að verið sé að ræna íslenska neytendur með þessum okurvöxtum sem ekki standast neina skoðun.“

Comments

comments