Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skilaði í dag af sér svari vegna máls Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur sem forsætisnefnd borgarinnar samþykkti að senda til skoðunar. Fjallað var um málið í borgarráði fyrr í dag.

Innri endurskoðun borgarinnar kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið athugavert við þátttöku Sveinbjargar í margnefndum aflandsfélögum sem varpað gæti rýrð á störf hennar sem borgarfulltrúi. Ljóst er af áliti Innri endurskoðenda að Sveinbjörg Birna hefur ekki brotið siðareglur Reykjavíkurborgar þar sem félögin voru komin í lokunarferli áður en hún var kjörin sem borgarfulltrúi.

Sveinbjörg Birna sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar borgarráðs

Yfirlýsing

Innri endurskoðandi og regluvörður Reykjavíkurborgar hafa nú lokið úttekt sinni að beiðni forsætisnefndar borgarinnar.

Ekki bar að skrá tengsl við aflandsfélög.
Í úttekt innri endurskoðanda og regluvarðar er staðfest að mér hafi ekki borið að skrá aflandsfélög sem ég tengdist á árunum 2007-9 á skrá um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa eða innherjaskrá, enda hafi þau verið afskráð á árinu 2009-10. Á árunum 2009-10 var ég með lögheimili og skattalegt heimilisfesti í Luxembourg.

Nauðsyn til að tilkynna á tveimur stöðum.
Í úttekt innri endurskoðanda og regluvarðar kemur fram að á árinu 2014 hafi ég í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti tilkynnt regluverði um þrjú nánar tiltekin einkahlutafélög sem fjárhagslega tengda aðila. Aftur á móti hafi mér jafnframt borið að tilkynna um tengsl mín við umrædd félög á skrá þeirri sem skrifstofa borgarstjórnar heldur um fjárhagslega hagsmuni.

Ekki brotið gegn sveitarstjórnar- og stjórnsýslulögum.
Í úttekt innri endurskoðanda og regluvarðar kemur fram að Reykjavíkurborg hafi ekki átt nein viðskipti við félög sem mér hafi borið að telja til fjárhagslega tengdra aðila. Niðurstaða þeirra er því að ég hafi ekki brotið sveitarstjórnar- eða stjórnsýslulög.

Breytingar á hagsmunaskráningu annarra borgarfulltrúa og brot á siðareglum
Í svarbréfi skrifstofu borgarstjórnar til forsætisnefndar 16. júní sl. var hafnað að veita upplýsingar um þá borgarfulltrúa sem hefðu breytt skráningu sinni á fjárhagslegum hagsmunum í kjölfar þess að forsætisnefnd óskaði eftir úttekt innri endurskoðanda og regluvarðar. Í þeirri úttekt sem nú liggur fyrir er bent á að tilefni geti verið til að skoða skráningu fjárhagslegra hagsmuna annarra borgarfulltrúa enda sýna gögn að breytingar hafa verið gerðar frá því að óskað var eftir úttektinni og þá hefur umboðsmaður borgarbúa með áliti sínu 3. júní sl. staðfest brot kjörinna fulltrúa á 2. gr. siðareglna borgarinnar.

 

Í ljósi niðurstöðu úttektarinnar mun ég snúa aftur til fyrri starfa minna í borgarstjórn.

Þannig gert á Akureyri þann 29. júní 2016

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.

Þetta vekur óneitanlega upp þá spurningu hvort úrvinnsla Reykjavík Media og Kastljóss RUV á svokölluðum Panamaskjölum hafi verið sett fram af klaufaskap eða í pólitískum tilgangi.

Það vekur athygli Veggsins að samkvæmt þessari bókun hafa fulltrúar meirihlutans hlaupið til og lagfært sínar skráningar hjá skrifstofu borgarstjórnar eftir að mál Sveinbjargar Birnu var sent Innri endurskoðun borgarinnar til skoðunar. Nánar um það síðar.

Comments

comments