Kosningar 2016Helstu tíðindin eftir spennandi kosninganótt eru þau að þjóðin hafnaði hugmyndum um nýja ríkisstjórn til vinstri. Þegar þetta er skrifað eiga eftir að koma endanlegar tölur úr norðvestur þannig að eitthvert hlaup gæti komið í þetta og þá helst að jöfnunarmenn fari á flakk.

Sigurvegari þessara kosninga er án nokkurs vafa Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn. Útkoma flokksins er afar glæsileg í ljósi þess að ríkisstjórnin átti undir högg að sækja á síðustu mánuðum. Flokkurinn fær 29% á landsvísu og 21 þingmann kjörinn. Bætir við sig 2,3% á landsvísu. Athygli vekur frábær stuðningur sem formaðurinn sjálfur fær í suðvestur en þar var flokkurinn að fá 33,9%. Nýliðinn í pólitíkinni Páll Magnússon landaði 31,5% fyrir Sjálfstæðisflokkinn í suðurkjördæmi sem er frábær árangur hjá honum og hans fólki.

Vinstri græn fá 15,9% á landsvísu sem er upp um 3% frá kosningunum 2o13. Þetta er heldur minna fylgi en spár sýndu fyrir kosningar. Píratar enda sem 3 stærsti flokkur landsins með 14,5% á landsvísu og er þetta hástökk þeirra +9,4% er í sjálfu sér frábær árangur en þetta er samt verulega minna heldur en skoðanakannanir voru að gefa vísbendingar um.

Stærsta hlutfallslega tapið í þessum kosningum er í Framsókn sem hrinur niður um -12,9% frá kosningunum 2013 og endar með átta þingmenn, missir 11 manns út af þingi. Nokkur spenna var fyrir kosningarnar hvor mundi skora betur í sínu kjördæmi Sigmundur Davíð eða Sigurður Ingi. Sigmundur Davíð hafði aðeins betur náði 20% kosningu fyrir framsókn í norðaustur á meðan Sigurður Ingi náði 19,1% fyrir Framsókn í suður. Þessi útkoma Framsóknar bendir til þess að formannskapallinn sem flokkurinn spilaði nokkrum dögum fyrir kosningar hafi ekki gengið upp. Því flokkurinn endar neðar en kannanir höfðu gefið vísbendingar um áður en nýr formaður var settur í brúnna. Það virðist í það minnsta ekki hafa verið nein eftirspurn eftir nýjum formanni. Naflaskoðun framundan hjá þeim ef að líkum lætur.

Viðreisn náði 10,5% á landsvísu sem er mjög góður árangur hjá nýju framboði. Athygli vekur að formaðurinn var tæpur í norðaustur en er sem stendur inni sem jöfnunarmaður. Ljóst er á þessum tölum öllum að Viðreisn er í lykilstöðu í komandi stjórnarmyndunarviðræðum.

Björt framtíð vinnur varnarsigur fær 7,2% á landsvísu. Kannanir fyrir nokkrum vikum bentu til þess að flokkurinn væri að fjara út og fengi engan þingmann.

Samfylkingin er enn í bullandi vandræðum og þær vísbendingar sem kannanir síðustu daga sýndu rættust í nótt. Flokkurinn er hinn stóri taparinn í þessum kosingum. 5,7% á landsvísu og 6 þingsæti farin. Varaformaðurinn Logi Már Einarsson er eini flokksmaður Samfylkingar sem virðist njóta trausts um þessar mundir. Formaðurinn er inni sem stendur sem jöfnunarmaður og gæti því enn dottið út þegar endanlegar tölur koma út norðvestur. Þjóðþekktir þingmenn Samfylkingarinnar eins og Össur Skarphéðinsson, Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir svo einhver séu nefnd eru dottin út af þingi.

 

 

Comments

comments