Egill Helgason ritar pistil á eyjan.pressan.is sem hann kallar „Fyrirtækjaáróður undir yfirskini fjölmiðlunar“. Þetta er nokkuð merkileg fyrirsögn í því ljósi að sá sem hana ritar hefur verið fremstur þeirra aðila sem tjá með skrifum sínum skoðanir á ýmsum hlutum í samfélaginu. Því má segja að framganga Egils Helgasonar sé undirrituðum að vissu leyti fyrirmynd og hvatning.

Til upplýsinga fyrir Egill Helgason og aðra vill ég taka fram að fyrirtækið Forysta ehf á vefmiðilinn veggurinn.is sem undirritaður ritstýrir og ber ábyrgð á. Þetta kemur fram á veggnum. Það er rétt hjá Agli að Forysta ehf á líka vefinn markadsmenn.is þar sem boðin er þjónusta við markaðsráðgjöf. Undirritaður og Friðrik heitinn Eysteinsson, sem andaðist í desember síðastliðnum langt fyrir aldur fram, stóðum sameiginlega að þessum vef. Endurskoðun á honum er í vinnslu eftir fráfall Friðriks. Það hefði verið snyrtilegra af Agli ef hann hefði nú minnst á að fyrirlesturinn „Allt sem þú vissir EKKI um markaðsstarf á Netinu en þorðir ekki að spyrja!“ var haldin af Friðriki heitnum í samvinnu við Frosta Jónsson, ráðgjafa í netmarkaðssetningu hjá Birtingahúsinu, eins og kemur skýrt fram á heimasíðu markaðsmanna. Það er ekki sæmandi pistlahöfundi sem vill láta taka sig alvarlega að reyna að gera það tortryggilegt.

Það að skrifa eða ræða óhikað um hin ýmsu mál samfélagsins er réttur sem við Egill, og allir Íslendingar eigum. Þetta er hluti af því að halda úti rökræðum þar sem mismunandi sjónarmið eru dregin fram. Að sjálfsögðu greinir menn á, og ekkert er óeðlilegt við það. Ég læt mér ekki detta í hug að skrifa sérstaka pistla um áróðurslegar skoðanir Egils eða annarra (jafnvel þó full ástæða væri stundum til). Þeir sem opinberlega lýsa skoðunum sínum hafa mismunandi leiðir til þess að koma sínum skoðunum á framfæri og svo er einnig um mig.

Undirritaður hefur tekið þátt í starfi með þeim sem standa að heimasíðunni Auðlindir okkar. Frábært starf sem þar er unnið. Þessi vettvangur nýtur mikillar hylli almennings enda eru fylgjendur síðunnar margir. Á Facebook síðu Auðlinda okkar segir

„Auðlindir okkar” fjallar um Ísland og Íslendinga, þær auðlindir sem við höfum úr að spila og hvernig við förum með þær. Markmiðið er að vekja spurningar og umræðu, byggða rökum og staðreyndum, með hliðsjón af sjálfbærni, verndun, nýtingu og arðsemi. Fiskur, orka og ferðamenn eru okkar hráefni.“

Því þarf engum að koma á óvart um hvað er fjallað á Facebook síðu Auðlinda okkar. Það hefði Egill geta skoðað og fræðst um á einfaldan hátt. Endurtökum hér kjarnann af því sem þar stendur:

„Markmiðið er að vekja spurningar og umræðu, byggða rökum og staðreyndum, með hliðsjón af sjálfbærni, verndun, nýtingu og arðsemi.“

Er hægt að hafa þetta mikið skýrara?

Veggurinn er miðill sem hefur hagsmuni íslensks atvinnulífs að leiðarljósi. Sú ritstefna sem þar birtist er stefna sem undirritaður mótar. Í þeirri stefnu felst meðal annars skilningur á mikilvægi stóriðjunnar í íslensku samfélagi. Vissulega er þessi stefna önnur en ritstefna Egils Helgasonar. En hún á fullan rétt á sér engu síður en hans atvinnupólitík. Það er gaman að sjá að þeir sem hingað til hafa átt þetta svið athugasemdalaust og án andmæla og hafa í því skjóli hafa getað mótað skoðanir fólks, skuli nú hafa af því áhyggjur að skoðanir og áherslur þær sem settar eru fram á Veggnum og hjá Auðlindum okkar skuli vera að ná eyrum sífellt fleiri.

VG

Comments

comments