Var í viðtali í þættinum Ísland í bítið í morgun þar sem rætt var um þá okurvexti sem íslenskir neytendur er látnir greiða til þóknast fjármálakerfinu. Ég nefndi að við erum að greiða 300% hærri húsnæðisvexti en í Noregi og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Sem dæmi þá bjóðast neytendum 30 ára húsnæðislán á 2% óverðtryggt í Danmörku um þessar mundir. Við erum að greiða 161 þúsund hærri vaxtagreiðslur í hverjum mánuði en t.d. í Noregi af 35 milljóna láni. Það er t.d. með ólíkindum að Seðlabankinn skuli vera hér með stýrivextina í 5,75% þegar verðbólgan er gjörsamlega í sögulegu lágmarki en 12 mánaða verðbólgan er einungis 1,5% og án húsnæðisliðar er hún 0,2%. Stýrivextir á Norðurlöndunum eru í kringum 0% og það þrátt fyrir að verðbólgan þar sé nánast sú sama og hér á landi. 

Seðlabankastjórinn hefur ítrekað sagt að ástæðan fyrir þetta háum stýrivöxtum séu of miklar launahækkanir í síðustu kjarasamningum og þessir snillingar bæði í Seðlabankanum, Samtökum atvinnulífsins og ekki má gleyma forseta ASÍ sögðu að verðbólgan myndi fara hratt af stað því launahækkanir hefðu verið of miklar. Hver man ekki þegar fulltrúar SA sögðu að óðaverðbólga myndi verða og hún gæti numið allt að 27% ef gengið yrði að kröfum verkafólks í síðustu samningum.

Ekkert af þessum dómsdagspám þessara snillinga hefur gengið eftir enda eru það ekki launahækkanir einar og sér sem knýja verðbólguna áfram og það nema síður sé enda sýna síðustu kjarasamningar það svo ekki verður um villst. Í þættinum Sprengisandi um daginn sagði Seðlabankastjóri að núna væri hann að bíða eftir að olíuverð myndi hækka sem gæti aukið veriðbólguna og sennilega er það núna ástæðan fyrir því að þessir menn telja sér trú um að hér þurfi að ríkja háir stýrivextir og okurvextir með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenska neytendur.

Comments

comments