Góðvinur okkar á Veggnum kom í kaffi um daginn og með ilmandi bollanum upplýsti hann um eina mestu samsæriskenningu síðari tíma.

Aðalmenn í samsærinu eru forstjóri Landsvirkjunar (LV) og Charles nokkur Hendry, sem er yfirmaður fyrirtækisins Atlantic Superconductors (ASc), en sá er fyrrum orkumálaráðhera Bretlands, þekkar alla sem vert er að þekkja í Evrópusambandinu (EU) og sagður kunna fjármálaklæki öðrum betur. Kenningin er þessi

LV og ASc hafa fyrir löngu komið sér saman um rafsæstreng frá Íslandi til Bretlands, reyndar fyrir svo löngu, að í útvarpsviðtali um það leyti, þegar sæstrengsskýrslur Kviku og forsætisráðherra áttu að koma út, hafði Markaðstjóri Landsvirkjunar gleymt því, að sviðsmynd Landsvirkjunar var 1000 MW strengur og sagði 1200 MW. Hann taldi líka, að fjármögnun strengsins væri komin á fullt.

Mikilvægur liður í samsærinu var að senda forsætisráðherra Bretlands á fund Sigmundar Frammsóknarföður og biðja um gott veður og sameiginlega úttekt á sæstrengsmálinu, enda var það nauðsynlegt svo Bretar áttuðu sig á hvað Ísland þyrfti til að samþykkja strenginn. Sameiginleg skýrsla skyldi rituð um þetta allt saman. Útgáfu þessarar skýrslu var svo frestað, enda ekki æskilegt fyrir Cameron í aðdraganda Brexit atkvæðagreiðslu (Brexit = kosning um úrgöngu Breta úr EU) að hafa það í umræðunni, að hann væri að reka erindi Mr Hendry Íslandi. Fréttamenn létu sér þessa frestun vel líka og kölluðu Markaðsstjóra LV í áður getið viðtal í staðinn. Brexit verður auðvitað fellt.

Næsti liður í samsærinu var að koma á uppboðsmarkaði fyrir raforku á Íslandi. Það er nauðsynlegt svo reka megi sæstrenginn sem hluta af tengineti hins sameinaða Evróumarkaðar. Hér er við ramman reip að draga, því mest öll raforka á Íslandi er seld á föstum stóriðjusamningu og nauðsynlegt að losa þar eitthvað um. Því var fenginn einhver aðili, sem ekki stendur of nærri Lv til að senda Eftirlitsnefnd ESA kvörtun um að hér væri orka til stóriðju niðurgreidd. Bréf eftirlitsnefndarinnar til stjórnvalda um efnið barst fyrir nokkru. Auðvitað verður LV beðið um álit í málinu og þar verður þess vel gætt, að umsögnin einkennist frekar af málsnilld en röksnilld. ESA mun svo kveða upp hæfilega „óhagstæðan“ úrskurð, þar sem til dæmis væri gott ef stæði að öll skerðanleg orka, sem sumir kalla afgangsorku, yrði að fara á uppboðsmarkað. Þar með verður Lv að ganga á fund stórnotenda og endurskoða samninga.

Þegar sæstrengurinn er kominn í augsýn hækka orkuverðin á markaðnum. Þá fer Straumsvík lóðrétt á hausinn og orkan beint á sæstrengin. Norðuráli verða settir afarkostir um endurnýjun samninga 2023 og sú orka fer líka á strenginn. Kísiljárnverksmiðjan hlýtur sömu örlög. Landsvirkjun þarf þá lítið sem ekkert að virkja, utan stækka nokkrar gamlar stöðvar og reisa einn eða tvo vindlundi. Þetta verður rakinn bissnes og ríkið fær fúlgur fjár í arð.

Hið stóra tækifæri kemur svo með uppgangi Pírata eftir næstu stjórnarskipti. Klofningsframboð EU-sinna frá íhaldinu skaðar ekki, nema síður sé. Best væri ef kratar gætu sameinast undir merkjum Borgar-Dags, sem hefur sýnt sig að geta stungið Pírötum í vasann. Þegar þessi stjórn hefur komið sér vel fyrir í stólunum fær hún tilboð sem ekki er hægt að hafna.

Þar til þetta tilboð er opinbert erum við ekkert að trufla málin með mælingum á íslenska landgrunninu og svoleiðis æfingum, enda þekkjum við allt þarna nógu vel þegar, til að geta gert öruggar áætlanir og Mr Hendry er þegar búinn að fá vilyrði um fjármögnun og gott ef hann er ekki líka búinn að koma okkur framarlega í biðröð sæstrengsframleiðanda. Hann er jú öllum hnútum kunnugur hvarvetna.

Auðvitað getur það komið upp, að Landsvirkjun þyki of stór fyrir uppboðsmarkaðinn, svo það verði að skipta henni. En það verður allt í lagi, það losna svo miklir peningar, sérstaklega ef Bretar, Frakkar og Þjóðverjar kaupa sinn hlutinn hver, að hægt verður að kaupa félagsmálapakka í gámavís svo Vinstri Grænir verða grænir af öfund og íhaldið svart og orðvana af illsku.

Framhaldið af öllu þessu máli verður svo nýr sækapall frá Íslandi vestur um haf, þar sem vinnudagur hefst 5 til 8 tímum á efir Evrópu. Þá verður kominn Atlantic Super Conductor, en það er framhaldssaga.

 

Comments

comments