Gunnar Heiðarsson Aka-Nöldrarinn

Gunnar Heiðarsson

Gunnar Heiðarsson skrifar:

Loksins kom vaxtalækkun, svo sem ekki mikil en lækkun þó og ber vissulega að fagna henni. En hún er bæði allt of lítil og kemur allt of seint.

Sama dag og Seðlabankinn kynnti lækkun á stýrivöxtum um 0,5%, kom frétt frá umboðsmanni skuldara um eftirgjöf skulda upp á  23,5 milljarða, til handa húsnæðiskaupendum í vanda. Til að setja þessa „rausn“ í samhengi við vaxtaokrið hér á landi, þá jafngildir þessi eftirgjöf skulda rétt rúmu einu prósentustigi vaxta af lánum til húsnæðiskaupa. Því má með sanni segja að ef vextir hér á landi væru lægri, hefði sennilega ekki þurft að koma til afskrifta þessara lána,a.m.k. ekki í sama mæli.

Annar vandi, mun hættulegri, er að erlendir spákaupmenn eru farnir að spila á vaxtagróðann hér á landi. Við hrun bankanna kom í ljós að slíkir spákaupmenn áttu gífurlega fjármuni í íslenska hagkerfinu. Með fjármagnshöftum samkvæmt neyðarlögum, sem sett voru í kjölfar bankahrunsins, tókst að koma í veg fyrir að allt þetta fé færi úr landi og setti okkur beinlínis á hausinn. Það tók síðan nærri átta ár fyrir okkur að komast út úr þeim vanda. Eða hvað? Vandinn er enn til staðar, þar sem vaxtamismunur við útlönd er þvílíkur og enn streyma hingað spákaupmenn í stórum stíl og ekkert lát á.

Fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu er þessi stefna Seðlabankans skelfileg. Fyrirfjármagnsöflin,sérstaklega erlend, er hún hins vegar sem himnasending.

Peningastefnunefnd Seðlabankans er algjörlega óhæf. Hingað til hefur henni ekki tekist að rökstyðja hávaxtastefnu sína. Oftast hafa verið notuð rök um að verðbólgan væri handan hornsins, launahækkanir til almennings hafa einnig verið notaðar sem afsökun.

Verðbólgan hefur hins vegar ekki enn sýnt sig, en mun vissulega gera það á endanum. Ekkert hagkerfi getur lifað lengi með lága verðbólgu meðan vöxtum er haldið í hæstu hæðum.

Svo merkilegt sem það er, þá höfðu launahækkanir ekki heldur áhrif á verðbólguna. Þó laun almennings hafi hækkað verulega miðað við verðbólgu, þá var þarna einungis um örlítið brot á leiðréttingu launafalls vegna hrunsins að ræða, ekki eiginlegar launahækkanir heldur einungis örlítið brot á leiðréttingu launa hins almenna launamanns. Slík leiðrétting hefur ekki áhrif á verðbólgu, enda fæstir þeirra sem hennar nutu að fá einhverjar stórar upphæðir til að velta út í þjóðfélagið. Hitt er undarlegra að launahækkanir til hátekjufólksins, sem hefur fengið mun meiri hækkanir í prósentum talið og margfaldar í krónum, skuli ekki hafa vakið verðbólgudrauginn.

En nú hafa þessir snillingar sem fylla peningastefnunefnd fundið ný rök, happdrættisrökin. Ég þurfti þó að lesa aftur þessi orð Seðlabankastjóra, svona til að vera viss, svo undarlega og barnaleg sem þau eru. Ekki ætla ég að hella mér út í frekari orðræðu um þessi rök bankastjórans, vil að hann eigi þá skömm einn og óstuddur.

Vandi heimila landsins eru háir vextir, vandi fyrirtækja landsins eru háir vextir, vandi hagkerfisins eru háir vextir.

Gróði bankanna er fyrir háa vexti, gróði erlendra fjármagnseigenda eru háir íslenskir vextir.

Hvort viljum við að Ísland sé fyrir fólkið í landinu og fyrirtækin, svo þjóðfélagið fái blómstrað, eða fyrir bankana og erlenda fjármagnseigendur?

Comments

comments